ÍBV fékk FH stúlkur í heimsókn í 11. umferð Pepsi-deildarinnar nú í kvöld.
Eyjastúlkur voru mun sterkari í upphafi leiks og leiddu leikinn með tveimur mörkum gegn engu eftir engöngu 9 mínútna leik. Eftir mörk frá Sigríði Láru Garðarsdóttur á 4. mín og Cloé Lacasse á þeirri 9. Cloé var svo aftur á ferðinni á 32. mínútu og kom ÍBV í 3-0. Þannig stóð í hálfleik.
Í síðari hálfleik gáfu FH stúlkur í og skoruðu þær Þóra Björk Eyþórsdóttir og Rannveig Bjarnadóttir sitt hvort markið fyrir FH. Eyjastúlkur stóðust þó áhlaupið þó ekki hafi mikið vantað uppá á stundum. Lokastaðan ÍBV 3-2 FH.
„Við vorum miklu sterkari en þær í fyrri hálfleik og áttum að vera búnar að ganga frá leiknum þar. Við áttum endalaust af færum og hefðum getað skorað fimm, sex, sjö eða átta mörk. Þrjú mörk á samt að vera nóg til að vinna fótboltaleik, þetta var allt annað en á móti KR. Seinni hálfleikurinn var fínn fram að fyrsta markinu sem þær skora, við vissum alveg að þær myndu pressa á okkur til að koma sér aftur inn í leikinn, svo gerðist svipað og á móti KR, það kom tíu mínútna kafli þar sem við gerðum mjög mikið af mistökum. Heilt yfir er ég þó ánægður með sigurinn,“ sagði Ian í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.
Eftir leikinn sitja FH stúlkur því áfram á botni deildarinnar með 6 stig. ÍBV siglir heldur lygnan sjó um miðbik deildarinnar í 5. sæti með 14 stig.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst