Við lok heimsfaraldar hélt jákvæð þróun í fjölgun komu skemmtiferðaskipa til Íslands áfram eftir tveggja ára hlé. Toppi var náð árið 2024, þegar hafnir Íslands þjónustuðu tæplega 100 skip í samtals 1.209 skipakomum sem skiptust þannig að 21,4% af komunum voru í Reykjavík en 78,6% á landsbyggðinni. Þótt ljóst sé að ekki er svipuðum tölum til að dreifa í fluginu liggur fyrir að yfirgnæfandi meirihluti, um 99,89%, koma í gegnum Keflavík. Drifkraftar þessarar aukningar í skipakomum voru, langvarandi markaðssetning Cruise Iceland, aukning í farþegaskiptum, almennur og mikill áhugi á Íslandi og uppsöfnuð ferðaþörf eftir heimsfaraldur.
Örar og skyndilegar breytingar á rekstrarumhverfi skemmtiferðaskipa á Íslandi, allt frá haustmánuðum 2023, hafa hins vegar valdið óvissu meðal útgerða þeirra skemmtiferðaskipa sem sækja landið heim. Óvissan, ásamt breytingum í rekstrarumhverfi eru núna á haustmánuðum ársins 2025 að skila sér í mikilli fækkun í skipakomum sem mun fyrst og fremst koma niður á minni höfnum landsbyggðarinnar.
Skipulagning og bókanir skemmtiferðaskipa eru unnar 2–4 ár fram í tímann og því munum við einungis sjá lítilsháttar breytingu á þessu ári. Það er hins vegar fyrirséður 17% samdráttur í heildarskipakomum á næsta ári og 37% samdráttur á árinu 2027, miðað við árið 2024. Ef við skoðum breytingar í brúttótonnum, sem gefa raunsæja mynd af heildarumsvifum, þá er áætlaður samdráttur 12% á næsta ári og 23% á árinu 2027, miðað við árið 2024. Bókunarstaðan gefur til kynna að minni skip komi síður en þau hafa einmitt einnig sótt minni hafnir hringinn í kringum landið. Þótt að bókunarstaða sé í raun alltaf áætlun, þá hefur verið hægt að áætla með nokkurri vissu 1,5 til 2 árum fram í tímann miðað við þá hefð sem hefur skapast í bókunum og því eru þessar tölur teknar alvarlega.
Skemmtiferðaskip heimsækja tæplega 40 hafnir og áfangastaði á landinu öllu, og í ljósi þess að um er að ræða mismunandi skip með mismunandi þarfir og markhópa, munu breytingar á bókunarstöðu því ekki leggjast jafnt á allar hafnir.
Meðal stærstu hafna landsins þá er fyrirséð talsverð fækkun í skipakomum fyrir árið 2026 og enn meiri fyrir árið 2027, miðað við metárið 2024. Nánari niðurbrot má sjá á töflunni að neðan.
Höfn | 2024 | 2025 | 2026 | 2027 |
---|---|---|---|---|
Reykjavík/Akranes | 259 | 239 | 217 | 174 |
Akureyri/Hrísey/Grímsey | 256 | 219 | 193 | 153 |
Ísafjörður | 195 | 191 | 175 | 136 |
Seyðisfjörður | 97 | 92 | 89 | 71 |
Grundarfjörður | 67 | 79 | 85 | 59 |
Vestmannaeyjar | 103 | 86 | 99 | 61 |
Meðal minni hafna má segja að fækkun í bókunum fyrir árið 2027 séu hrun, sem rekja má til afnám tollfrelsis, nýju innviðargjaldi, stuttum fyrirvara á gjaldtöku og almennri óvissu með fyrirkomulag á rekstri skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur.
Hafnir eins og höfnin á Siglufirði, Borgarfirði Eystri, Djúpavogi og Húsavík sjá fram á allt að 95% fækkun í skipakomum. Á töflunni að neðan má sjá niðurbrot í skipakomum eftir árum meðal minni hafna á Íslandi.
Höfn | 2024 | 2025 | 2026 | 2027 |
---|---|---|---|---|
Djúpivogur | 64 | 59 | 42 | 31 |
Siglufjörður | 27 | 32 | 10 | 8 |
Borgarfjörður Eystri | 21 | 22 | 12 | 1 |
Húsavík | 50 | 56 | 27 | 19 |
Hafnarfjörður | 19 | 18 | 31 | 16 |
Vesturbyggð | 26 | 7 | 20 | 7 |
Sauðárkrókur | 8 | 9 | 6 | 6 |
Sigurður Jökull Ólafsson
Framkvæmdastjóri Cruise Iceland
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst