Bras og vesen að veikjast úti á landi

Sjúkrasögur úr Vestmannaeyjum:

Þessari grein er ekki ætlað að kasta rýrð á fólkið í heilbrigðiskerfinu, þvert á móti því söguhetjur okkar bera því vel söguna en það er ekkert grín að vera úti á landi þegar eitthvað ber út af.

Söguhetjurnar er kjarnafólk, fætt 1974 og kallar ekki allt ömmu sína þegar á móti blæs. Dag einn í síðustu viku fann okkar maður fyrir eymslum í maga milli klukkan fimm og sex um morguninn. Sársaukinn jókst eftir því sem leið á morguninn og klukkan hálf tíu dreif hann sig upp á spítala.

Fyrsti úrskurður var nýrnasteinar en eftir myndatöku kom í ljós að steinn var í botnlanganum og það kallaði á aðgerð og sjúkraflug. Sjúkraflugvél ekki tiltæk, þurfti að skreppa á Norfjörð áður en kom að okkar manni.

Hann beið frá klukkan eitt til klukkan fjögur. Lét samt ekki illa af sér, vel verkjastilltur og á Landspítalanum var hann drifinn undir hnífinn. Þá var klukkan tíu um kvöldið. Hann var látinn liggja yfir nótt til öryggis en hann vildi heim strax daginn eftir.

Dreif sig í Þorlákshöfn þar sem Herjólfur beið og þriggja tíma sigling fram undan. „Engin voru sængurfötin en áhöfnin bjargaði því og svaf ég alla leiðina til Eyja. Í Herjólfi mætti ég sömu umhyggju og hlýju og á Spítalnum okkar og á Landsspítalnum. Allt unnið af mikilli alúð og fagmennsku. Ég er sko ekki að kvarta og kannski hefur maður gott af því að veikjast. Það sem ég sá á Landspítalanum gleymist aldrei og þetta sem kom fyrir mig er svo pínulítið í þeim samanburði,“ sagði okkar maður sem allur er að skríða saman.

Okkar kona var einn dag i vikunni sem leið úti að labba með hundinn þegar óhappið varð. Ekki vildi betur til en svo að hún datt, fór úr lið og er þríbtotin á ökla. „Þetta kom í ljós eftir myndatökur á Spítalanum þar sem ég lá um nóttína. Næsta skref var aðgerð á Landspítalnum. Það var mat læknis að ég þyrfti ekki sjúkraflug og því varð fjölskyldubíllinn að duga,“ sagði konan og ekki óhress.

„Það var frekar eiginmannum sem fannst nóg um en mér var troðið í aftursætið, eins ólögleg og hægt er að vera en ég komst á Landspítalann. Málunum reddað og nú er ég komin heim og má ekki stíga í fótinn næstu sex vikur.“

Þegar upp er staðið er okkar kona bara nokkuð ánægð. „Ég veit að sjúkraflug kostar mikið og skil því afstöðu læknisins hérna. Ferðalagið gekk vel. Meiðsli mín voru metin það alvarleg að ég komst strax í aðgerð. Ég frétti af fólki sem var búið að bíða í fimm daga þannig að ég bara þakklát.“

Nýjustu fréttir

„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.