Nýlega kom út bókin „Silfuröld revíunnar“ eftir Unu Margréti Jónsdóttur, en það er síðara bindi íslenskrar revíusögu. Fyrra bindið, „Gullöld revíunnar“, kom út 2019 og var þar fjallað um íslenskar revíur frá 1880 til 1957. Í „Silfuröld revíunnar“ er fjallað um revíur á tímabilinu 1957-2015. Meðal annars koma þar við sögu revíusýningar í Vestmannaeyjum. Hér kemur kafli úr bókinni. Tilvitnanir og upplýsingar um flytjendur eru prentaðar með smærra letri.
Úr bókinni, fyrri hluti
Á níunda áratug 20. aldar fór að fjölga revíusýningum í Vestmannaeyjum, einkum fyrir atbeina Sigurgeirs Scheving, sem bæði samdi revíur og leikstýrði þeim. Árið 1982 var sýndur á veitingastaðnum Hallarlundi svonefndur Hallarkabarett eftir Sigurgeir Scheving og Runólf Gíslason. Að sögn Sigurgeirs vakti „hringormadansinn“ þar mesta athygli, en Runólfur dansaði hann í gervi Sigurlínu, gamallar konu. Sjö árum síðar setti Leikfélag Vestmannaeyja á svið revíu eftir Sigurgeir, Runólf og Hólmfríði Sigurðardóttur: Við brimsorfna kletta.
Við brimsorfna kletta
söngleikur
Í kvöld verður hörkufjör á Hallar-Skansinum…

Leikfélag Vestmannaeyja
Vestmannaeyjum, 3.12. 1989
Höfundar: Sigurgeir Scheving, Hólmfríður Sigurðardóttir og Runólfur Gíslason
Leikstjóri: Sigurgeir Scheving.
Hljóðfæraleikur og útsetning tónlistar: Lýður Ægisson, Karl Sighvatsson, Gísli Helgason og fleiri.
Leikmynd: Sigurgeir Scheving.
Búningar: Björg Valgeirsson, Ólöf S. Waage og fleiri.
Lýsing: Lárus Björnsson.
Dansar: Margrét Brandsdóttir.
Við brimsorfna kletta: Helstu persónur og leikendur
Aðalsteinn Þ.B. Óskarsson: Sveinn Tómasson.
Rósa Runólfsdóttir: Ingibjörg Hafliðadóttir.
Mamma (tengdamamma): Hólmfríður Sigurðardóttir.
Lögregluþjónar: Einar Sigurfinnsson og
Sæmundur Sigurðsson
Eggert A. Markan: Ágúst Haukur Jónsson
Aðalbjörg: Unnur Guðgeirsdóttir
Mundi: Þráinn Óskarsson
Rósa Ingólfs: Lára Skæringsdóttir
21 leikari í öðrum hlutverkum.
Við brimsorfna kletta: Um revíuna
Leikritið Við brimsorfna kletta var samið og sett á svið í tilefni af 70 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar. Leikritið var í tveimur ólíkum hlutum. Fyrri hlutinn var revía, en seinni hlutinn var ljóðaleikurinn Dóttir eyjanna eftir Hafstein Stefánsson. Í lokin var sungið nýtt sönglag eftir Lýð Ægisson.
Það er að sjálfsögðu aðeins revían sem fellur undir svið þessarar bókar. Í henni kemur ýmislegt við sögu. Á þessum tíma var um það talað í Eyjum að sumir væru illa haldnir af „aðalveikinni“ sem fólst í löngun til að láta af sér bera. Í samræmi við þetta heitir ein helsta persóna revíunnar Aðalsteinn og finnur talsvert til sín. Annað sem tekið er fyrir í revíunni er opnun nýs skemmtistaðar í Vestmannaeyjum. Nokkrum árum áður höfðu Pálmi Lórenz og Marý Sigurðardóttir opnað þar veitinga- og danshús sem hét Skansinn. Annar samkomustaður í Eyjum hét Hallarlundur. Í revíunni heitir skemmtistaðurinn Hallar-Skansinn og eigandi staðarins Burkni Flórens. Bruni lögreglustöðvarinnar í Vestmannaeyjum kemur einnig við sögu, en hún hafði brunnið árið áður vegna þess að fangi sem þar var í haldi kveikti í dýnu sinni.

Við brimsorfna kletta: Söguþráður
Hjónin Rósa Runólfsdóttir og Aðalsteinn Þ.B. Óskarsson eru að búa sig á ball. Regína dóttir þeirra ætlar líka, en hefur áhyggjur af því að allt verði fullt af gömlu fólki á ballinu. Dóra systir Rósu hringir og Rósa segir henni að það eigi að vígja nýjan skemmtistað, Hallar-Skansinn, sem Burkni Flórens hafi sett á stofn. Aðalsteinn eigi að vera veislustjóri. Dóra segist vona að hann sé ekki kominn með aðalveikina.
Aðalsteinn er gramur og þegar Rósa kemur úr símanum segir hann að systir hennar sé mesta vandræðamanneskja þegar hún fær sér í glas og mamma hennar sé ekkert betri.
Rósa: Þú ættir að skammast þín Aðalsteinn að tala svona – hún mamma – (mamma inn) – MAMMA.
Hva mamma! Þú komin aftur? Ætlaðirðu ekki að vera hjá henni Siggu systir í nótt?
Mamma: Já, ég held ég drífi mig bara með ykkur á ballið. Það er orðið svo asskoti langt síðan ég hef farið á ball!
Rósa: Nei mamma, þú getur ekki komið með okkur.
Aðalsteinn: Nei, það er sko barasta aldeilis útilokað.
Mamma: Nei, það er sko barasta aldeilis ekki útilokað, skal ég segja ykkur. – Ég hef ákveðið að fara á ballið.
Eftir nokkurt þref sér Aðalsteinn að engu tauti verður komið við tengdamömmu. Hann segir að þau skuli æfa atriðið sitt áður en þau fara. Börnin, Gína og Tryggvi, eru lítið hrifin, en Aðalsteinn krefst þess að þau séu með. Þau syngja „Í kvöld verður hörkufjör á Hallar-Skansinum“ við lagið „Don´t fence me in“. Alli notar sönginn til þess að stæra sig af því að hann sé veislustjóri og þykist líka vera mikill sjarmör. Rósu konu hans finnst nóg um og kemur með stríðnislegar athugasemdir um útlit Alla. Hann fer í „bullandi varnarstöðu“ sem ratar inn í sönginn:
Alli: Hvað ertu að væla þó að vanti nokkur hár.
Rósa: Var ég að því!
Alli: Þú veist að í toppstykkinu er ég nokkuð klár.
Tengdamamma: Ekki vissi ég af því….!
Alli: Vertu ekki gamla mín með neinar glennur (otar puttanum að tengdamömmu)
Þú glottir ekki á morgun þegar af þér rennur.
Ég ætti kannski að fela þínar fölsku tennur.
Fjör væri í því!
Fjölskyldan heldur svo á ballið, en kynnir kemur og talar við áhorfendur. Að loknu atriði um fótbolta kemur ræstingakona með kúst og fer að tala um brunann á lögreglustöðinni. Sviðið breytist í lögreglustöð og þar eru tvær löggur. Lögga 1 er fyrst utansviðs og heyrist loka inni brennuvarg sem kveikti í fiskiðjunni, en kemur síðan og fer að horfa á sjónvarpið með löggu 2. Þeir horfa á bláu myndina „Í umferðarmerkinu“ á Stöð 2. Á meðan fyllist varðstofan smám saman af reyk. Lögga 1 segir löggu 2 að slökkva í sígarettunni, en fær það svar að hann sé löngu hættur að reykja. Loks átta löggurnar sig á því að það er kviknað í lögreglustöðinni.
Lögga 1: Það er kviknað í hérna. Hringdu í slökkviliðið.
Lögga 2: Já, en lögreglan svarar fyrir slökkviliðið.
Lögga 1: Hringdu þá í lögregluna mannfjandi!
(allt fer í pat)
Lögga 2: En við erum lögreglan.
Lögga 1: Við verðum bara að fá að hringja í næsta húsi.
(skjögra út og hverfa í reyk)
Fleiri atriði sjást úr lífi Eyjamanna, meðal annars talar læknir við sjúkling sem þjáist af „aðalveikinni“. Hann syngur í anda Árna Johnsen og segist bókstaflega ekki þola við ef hann er ekki í sviðsljósinu. Einnig er litið inn á fund hjá bæjarstjórninni og samkomu hjá Hrekkjalómafélaginu.
En loks víkur sögunni á ballið á Hallar-Skansinum. Þar er sungið lagið „Undrahatturinn“ eftir Ása í Bæ og Alli er forsöngvari. Að söngnum loknum kemur skáld nokkurt að máli við Alla.
Skáldið: Ert þú þessi Aðalsteinn L.Í.Ú. – eða svoleiðis.
Alli: L – Í – ha – hva…
Rósa: Hvað vilt þú upp á dekk væni. Hver ert þú?
Skáldið: Þú ættir nú að kannast við mig. Eggert A. Markan.
Rósa: – Ha…ekkert að markann – hvern?
Skáldið: Ég er skáldið Eggert A. Markan. Skáld með skarpa tungu – vinur í raun – ef kreppir skór að Burkna Flór – drekkur bara skáldið ennþá meiri bjór – málunum bjargað og engum fargað.
Skáldið heldur áfram að kalla Alla Aðalstein L.Í.Ú. þangað til hann þrumar: „Ég er ekkert andskotans L.Í.Ú., ég er Þ.B.Ó.“ Aðalbjörg kemur og minnir Alla á að Mundi sinn eigi eftir að halda ræðu. Alli spyr hvort hann sé ekki orðinn of drukkinn til þess, en Aðalbjörg segist vera búin að gera sínar ráðstafanir til þess að hann standi í lappirnar. Alli kynnir þá Guðmund Hermann sem ræðumann.
(Aðalbjörg kemur inn með Guðmund Hermann í göngugrind, þrælslompaðan.)
Aðalbjörg: Og ræðu skaltu halda helvískur…
Loks kynnir Alli heiðursgest kvöldsins, Rósu Ingólfsdóttur. Rósa birtist í baðkari, en öllum að óvörum skríður tengdamamma ofan í það. Alli og Rósa syngja saman lagið „Ó þú gersemin mín“ og Alli er alveg heillaður af Rósu. Rósa hin, þ.e.a.s. eiginkona Alla, er ekki ánægð og spyr Alla hvort það sé ekki kominn tími til að binda enda á skemmtunina. Alli tilkynnir að skemmtuninni sé lokið. En þá kemur þjónn og hvíslar einhverju í eyra honum. Alli tekur þá aftur til máls og tilkynnir gestum að „vegna einhvers misskilnings í sambandi við söluskatt“ sé búið að innsigla Hallar-Skansinn svo að þau komist ekki út. „Við skulum því bara syngja eitt lag,“ segir Alli. Og revíunni lýkur með því að sungið er hið þekkta lag Ása í Bæ við texta Lofts Guðmundssonar: „Við brimsorfna kletta“.
Við brimsorfna kletta: Viðtökur
„Stórskemmtileg lýsing á lífi Eyjamanna fyrr og nú“ – þannig hljómaði fyrirsögn umfjöllunar um leiksýninguna í blaðinu Fréttir – Eyjafréttir. Sýningin var sögð stórsigur Sigurgeirs Scheving sem höfundar og leikstjóra, og söngtextum Lýðs Ægissonar var einnig hrósað. Leikararnir voru margir sagðir hafa farið á kostum, enda hefði öllum verið innilega fagnað í leikslok.
Það voru þakklátir leikhúsgestir sem yfirgáfu Bæjarleikhúsið að sýningu lokinni. Allir sem blaðið ræddi við höfðu skemmt sér vel og töldu þeir þetta eina bestu sýningu félagsins í mörg ár.
Samkvæmt auglýsingum fór síðasta sýning fram 15. desember 1989.
Seinni hluti
Aðalefni revíunnar var fólksfækkun sem orðið hafði í Eyjum. Í revíunni er stofnað félag sem hefur það að markmiði að fjölga Eyjamönnum og eru vinkonurnar Ólafía og Vigga atkvæðamiklar í félaginu. Í fjölgunartilgangi er farið að selja drykk sem heitir Hormónalísa og jafnvel Ólafía neyðist til að drekka hann þótt hún segist vera komin úr barneign. Einnig eru settar ýmsar reglur til þess að hamla á móti fólksfækkun, til dæmis að hver sem fari til lands með Herjólfi verði að kaupa sér miða fram og til baka.
Vandræði hjónanna Viggu og Kalla blandast einnig inn í revíuna. Þau eru að reyna að fá föður Kalla til þess að selja kvótann sinn, enda sjá þau að á því mætti græða heilmikið. En karlinn er ekkert á því að selja, hann segir að maður eigi að veiða sinn fisk sjálfur.
Vigga: Já, en ef saltfiskurinn selst ekki.
Sá gamli: Selst ekki? SELST EKKI? (Er orðinn æstur) Auðvitað selst fiskurinn. Ég á hann og ég sel hann. Hvað eruð þið að rífa ykkur? Ég á þetta hús og ég á kvótann og hér er það ég sem ríð rækjum. (Vigga og Kalli hlæja). Æ…é´eld é´fari bara að leggja mig, þa´ verður komið sjóveður með morninum.
Þannig er samtalið í handriti revíunnar, en til er myndbandsupptaka af sýningu og þar bætir sá gamli við: „Hann sagði það hann Ámundi málari og ekki lýgur hann.“ Að þessu er mikið hlegið. En svo vildi til að Ámundi sat í salnum á þessari sýningu og fannst leikaranum, Runólfi Gíslasyni, þá tilvalið að bæta þessu við.
Viggu og Kalla tekst loksins að fá þann gamla til að skipta um skoðun með því að senda á hann lögfræðing sem fer að yfirheyra hann um veiðarnar og les upp úr reglugerð sem gildir um þær.
Kallinn: Ég skil nú ekkert í þessu.
Lögfræðingur: Þetta er sáraeinfalt, maður. Ertu á aflahámarki eða sóknardögum?
Kallinn: Sóknardögum? Ja, nei ég hef nú bara alltaf verið í Landakirkjusókn en ég fer bara í kirkju á sunnudögum, ekki sóknardögum.
Lögfræðingur: Þú hlýtur að vita þetta maður. Hefurðu verið með línu?
Kallinn: Nei það er bölvaður uppspuni. Því var logið á mig. Ég var aldrei með kellingunni.
Þegar lögfræðingurinn segir þeim gamla að hann hafi ekki skilað réttum skýrslum og muni fá á sig gjald er kallinum nóg boðið. Hann segir Viggu og Kalla að þau megi hirða kvótann, það sé ekkert gaman að þessu lengur.
Ýmsir þekktir menn úr Vestmannaeyjum eru skopstældir í revíunni, svo sem Árni Johnsen alþingismaður og Snorri Óskarsson, kenndur við söfnuðinn Betel. Snorri hafði árið áður flaggað í hálfa stöng í tilefni af því að löggjöf um hjúskap samkynhneigðra var samþykkt á Alþingi, en hann leit á samkynhneigð sem synd samkvæmt Biblíunni. Átaldi Sýsluskrifstofan þetta sem ranga notkun á fánanum. Í revíunni kemur Árni Johnsen til Snorra með tvær ungar stúlkur sem hann segir að séu lesbíur. Snorri sprautar á þær úr brúsa, en hann reynist tómur og Snorri segir: „Æ, aflesbunarspreyið búið.“ Hann ákveður að hringja í sýsluskrifstofuna og tautar númerið fyrir munni sér.
Snorri: 481-1066…Andstyggð að hafa þetta sex í öllum númerum!
Þetta síðasta stendur reyndar ekki í handritinu, heldur er aðeins með á myndbandinu af sýningunni. Runólfur Gíslason lék Snorra og bætti þessu við. Þegar Snorri kemst að því að Georg sýslumaður er ekki við verður hann hæstánægður, hann getur þá flaggað í hálfa stöng í friði.
Lokaatriði revíunnar gerist ári eftir stofnun Fjölgunarfélagsins. Barátta þess hefur borið góðan árangur því margar Eyjakonur eru nú óléttar, jafnvel „Lauga less“ sem er önnur af lesbíunum úr atriðinu með Snorra í Betel. Sunginn er lokasöngur leikritsins „Nú er tími til að kætast“ sem endar með orðunum: „Lífið er eins og revía, ótrúlegt en satt.“ Í lok söngsins hnígur Ólafía niður, hún er líka orðin ólétt.
Revían fékk allgóða dóma og stóð m.a. í Fréttum-Eyjafréttum að Runólfur Gíslason hefði sýnt frábæra persónusköpun með leik sínum. Atriði úr revíunni voru sýnd á Vestmannaeyjakvöldi á Hótel Íslandi í Reykjavík 2. maí við góðar undirtektir.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.