Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 1,6 milljóna króna sekt fyrir að hafa ræktað og haft í vörslum sínum kannabis í Vestmannaeyjum.
Samkvæmt gögnum málsins viðurkenndi maðurinn skýlaust fyrir dómi að hafa ræktað fjórar kannabisplöntur og haft í vörslum sínum 20,07 grömm af maríhúana og 284,03 grömm af kannabislaufum. Lögreglan í Vestmannaeyjum lagði hald á efnið og búnað sem notaður var við ræktunina, þar á meðal ræktunartjald, gróðurhúsalampa, loftblásara og viftu.
Málið var þingfest í apríl síðastliðnum og tekið til dóms í september. Dómur var kveðinn upp þann 1. október sl.. Í dómnum kemur fram að háttsemin varði við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni. Þar sem maðurinn hafði ekki áður hlotið refsingu var refsingin ákveðin sem sekt að fjárhæð 1.600.000 króna, sem greiða skal innan fjögurra vikna. Ef sektin verður ekki greidd skal hann sæta fangelsi í 52 daga.
Auk þess voru gerð upptæk framangreind fíkniefni og búnaður sem notaður var við ólögmæta ræktunina. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða sakarkostnað samtals 369.413 krónur, þar af rúmlega 267 þúsund krónur í þóknun til skipaðs verjanda.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst