Ísland mætir heimsmeisturum Danmerkur í kvöld í undanúrslitum EM karla í handbolta á þeirra heimavelli í Herning. Elliði Snær Viðarsson hefur átt góðu gengi að fagna á báðum endum vallarins á mótinu og segir hann lykilatriði til að vinna Danina sé að eiga frábæran leik bæði sóknar- og varnarlega.
En hvað er það helst sem íslenska liðið þarf að stoppa í leik Danmerkur?
„Í stuttu máli þurfum við að reyna að koma í veg fyrir hraðaupphlaupin og seinni bylgjuna,” segir hann.
Eyjamaðurinn hefur spilað sérstaklega vel í síðustu tveimur leikjum. Aðspurður að því hvort hann komi ekki fullur sjálfstraust inn í undanúrslitaleikinn segir hann ,,Jú, ég og allt liðið komum fullir sjálfstrausts inn í þennan leik. Það hafa allir átt sína góðu og slæmu kafla en við treystum á hvorn annan og að lokum er það breiddin í hópnum sem hefur skilað okkur hingað.”
Elliði hefur verið vaxandi á mótinu og segist hann vera ánægðastur með það hvað hann hefur bætt leik sinni mikið eftir því sem liðið hefur á mótið.
Útlitið var heldur svart eftir leikinn gegn Sviss og flestir Íslendingar höfðu trú á að Evrópumótinu væri lokið hjá Íslandi. Spurður að því hvernig tilfinningin var þegar þetta var komið aftur í hendurnar á þeim segir Elliði ,,tilfinningin var alveg mögnuð, eftir ömurlega 6-7 tíma fengum við nýtt líf. Sem gaf okkur auka orku.”
Undanúrslitaleikur Íslands og Danmerkur fer fram í Herning, í Danmörku, í kvöld kl. 19:30. Þetta er í fyrsta sinn í 16 ár sem Íslands kemst í undanúrslit á stórmóti og mikið í húfi.