Nú er í kynningarferli listaverk sem setja á upp á Eldfell. Upphaflega var þetta reyndar kynnt sem minnisvarði en nú skal listaverk kalla, skiptir þó kannski ekki öllu, en snýst líklega að mestu að því að sýna listamanninum virðingu.
Í þeim kynningargögnum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir nýjum útsýnisstað á Eldfellshrauni þar sem horft er í átt til Eldfells auk tröppulögðum 1,5-2,5m breiðum göngustíg frá hrauninu og á topp Eldfells sem myndar hringlaga form séð frá útsýnisstaðnum.
Þrátt fyrir ábendingar fagmanna, til dæmis Náttúruminjastofnunar, bæði um öryggi og ásýnd keyrir meirihluti bæjarstjórnar málið áfram og rætt er um að framkvæmdirnar séu afturkræfar. Eflaust væri hægt að fjarlægja þetta með tiltölulega auðveldum hætti en ljóst er skv. gögnum að ásýnd svæðisins yrði ekki söm. Mig langar að hvetja íbúa til að láta sig málið varða og skoða þau gögn sem fyrir liggja.
Fáum dylst að Ólafur Elíasson er stórfenglegur listamaður sem hefur gert listaverk á heimsmælikvarða. Eru mótmæli mín ekki ætluð til að vera honum til minnkunar, og það er mér reyndar til efs að þessar vangaveltur bæjarfulltrúa í minnihluta bíti nokkuð á listamanninn. Fyrir suma er ef til vill nóg að um sé að ræða þennan listamann, en fyrir mig er það ekki. Ég vil fá að sjá endanlegar hugmyndir, útlit, efnisval og kostnað áður en málið heldur áfram. Könnun Eyjafrétta/Eyjar.net gefur glögglega til kynna að ég sé ekki ein um þá skoðun en það eru um 78% svaranda sem vilja fá útlitshugmynd og 85% vilja fá að sjá kostnaðaráætlun. Slíkar niðurstöður gefa vísbendingu um þetta skipti íbúa máli, sem ég skil mæta vel enda svæðið sem um ræðir greipt inn í huga Eyjamanna, og Íslendinga margra, sem merkilegur og einstakur atburður sem hafði áhrif á svo margt og marga.
Nú liggur fyrir hver greiðsla til listamannsins er skv. samningi, en hvað kostar allt hitt? Hvað kostar lagning göngustígsins, með handriðum amk. öðru megin? Hvað kostar gerð útsýnisstaðsins á Eldfellshrauni? Hvað kostar gerð bílastæðis, með rútustæði og góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða? Hvað kostar lýsing og lagning hennar? Örugglega væri hægt að telja meira til.
Þessum spurningum er öllum ósvarað en ljóst er að sú fullyrðing meirihluta E- og H- lista um að Vestmannaeyjabær myndi ekki leggja í verkefnið meira en 50 milljónir króna er einfaldlega röng en sú upphæð rennur öll til listamannsins.
Margrét Rós Ingólfsdóttir
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst