Hin árlega afhending fréttapýramída Eyjafrétta fór fram í Eldheimum í hádeginu í dag. Þetta var í 28. skipti sem fréttapýramídinn var veittur.
Þeir sem Eyjafréttir völdu að þessu sinnu hafa allir tekið þátt í að stimpla Vestmanneyjar frekar inn á kortið og auðga okkar samfélag, hver á sinn hátt.
Fjórar viðurkenningar voru veittar. Fyrir framlag til Íþrótta fékk meistaraflokkur karla í handbolta viðurkenningu. Ómar Garðarsson fyrverandi ritstjóri Eyjafrétta fékk viðurkenningu fyrir sitt framlag til menningarmála og Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir fékk viðurkenningu fyrir sitt framlag til samfélagsins.
Fjöldamörg félög og samtök reiða sig á þátttöku sjálfboðaliða í starfi sínu í Vestmannaeyjum. Ætla má að margir eyjamenn hafi einhvern tímann tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi. Fólk á öllum aldri ver þannig hluta frítíma síns í þágu mannbætandi starfs af ýmsu tagi.
Þetta þekkjum við í Vestmannaeyjum og eitt er víst að samfélagið okkar væri annsi fátækt ef það væri ekki fyrir allskonar eyjamenn sem taka að sér hin ýmsu sjálfboðaliðastörf. Verðmæti hvers samfélags er nefnilega mannauðurinn og í Vestmannaeyjum er fullt af fólki sem sinnir hinum ýmsu störfum, sum þeirra mjög óeigingjörn og allt er það í þágu samfélagsins. Eyjamaður ársins að mati ritstjórnar Eyjafrétta er því Sjálfboðaliðinn, í hvaða mynd sem er.
Hægt er að lesa nánar um málið í næsta tölublaði Eyjafrétta sem kemur út í vikunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst