Strákarnir í U19 landsliðinu í handbolta eru nú staddir í Egyptalandi þar sem þeir taka þátt í HM. Með í för eru tveir efnilegir leikmenn úr Eyjum, þeir Andri Erlingsson og Elías Þór Aðalsteinsson.
Strákarnir unnu öruggan sigur gegn Gíneu í fyrsta leik, en liðið lék sinn annan leik í gær gegn Sádi-Arabíu og fór sá leikur afar vel af stað fyrir Ísland sem vann aftur öruggan sigur. Eyjastrákarnir létu heldur betur til sín taka í leiknum – Andri skoraði eitt mark og Elías Þór þrjú.
Báðir hafa þeir verið lykilmenn í yngri flokkum ÍBV undanfarin ár. Þetta er mikil og góð reynsla fyrir ungu leikmennina og ánægjulegt að sjá fulltrúa frá Eyjum í landsliðsverkefnum af þessu tagi.
Ekki eru það þó aðeins strákarnir sem láta til sín taka á erlendum handboltavettvangi – tvær efnilegar eyjastelpur eru einnig í landsliðsverkefni þessa dagana. Þær Klara Káradóttir og Agnes Lilja Styrmisdóttir spila með U17 landsliði Íslands á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Podgorica í Svartfjallalandi.
Við fylgjumst spennt með framhaldinu og óskum leikmönnunum góðs gengis í komandi leikjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst