Það hefur verið nóg að gera hjá áhöfn og starfsfólki Herjólfs í júlímánuði og ferjan sigldi átta ferðir á dag milli lands og Eyja. Við hittum Ólaf Jóhann Borgþórsson, framkvæmdastjóra Herjólfs, sem segir síðasta mánuð hafa verið með þeim allra stærstu í sögu ferjunnar.
„Við fluttum tæplega 86 þúsund farþega í júlí, sem er næstmesti fjöldi sem við höfum flutt í þessum mánuði,“ segir Ólafur. „Þetta er 15 prósenta aukning frá júlí í fyrra, sem er frábært að sjá. Við finnum greinilega fyrir því að fólk vill heimsækja Eyjar – bæði heimamenn og gestir.“
Hann bætir við að júlí 2023 haldi enn metinu sem stærsti mánuðurinn í farþegafjölda, þegar tæplega 90 þúsund manns ferðuðust með Herjólfi. „En við erum mjög ánægð með þróunina núna. Það er bjart yfir þessu.“
Það voru þó ekki aðeins farþegatölurnar sem vöktu athygli – því aldrei áður hafa fleiri bílar verið fluttir með Herjólfi í einum mánuði.
„Við fluttum yfir 20 þúsund bíla í júlí, og á stærsta deginum náðum við að flytja 888 bíla, sem er algjört met. Það var mikið álag en starfsfólkið okkar stóð sig frábærlega.“
Ólafur segir þó að álagið hafi að sjálfsögðu haft áhrif: „Við vorum með 95 ferðir þar sem bílar voru á biðlista, en það jákvæða er að í 69 af þeim ferðum náðum við að koma öllum bílum með. Þar skipti miklu að við bættum við áttundu daglegu ferðinni yfir háannatímann.“
Nú stefnir Herjólfur að því að fara aftur í hefðbundna daglega áætlun. „Frá og með 11. ágúst förum við aftur í sjö ferðir á dag, líkt og hefð er fyrir eftir háannatímabilið,“ útskýrir Ólafur.
Aðspurður um framhaldið segir hann útlitið vera gott: „Bókunarstaðan fyrir ágúst lítur vel út og það gefur okkur tilefni til að vera bjartsýn. Það er greinilegt að Vestmannaeyjar halda áfram að heilla – og við erum stolt af því að vera hluti af því ferðalagi.“ sagði Ólafur kankvís að lokum er hann hélt út í sumarblíðuna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst