Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum er meðal þeirra verkefna sem hlutu samfélagsstyrk frá Krónunni fyrir árið 2025.
Krónan hefur um árabil veitt samfélagsstyrki til verkefna í nærsamfélagi verslana sinna og líkt og fyrri ár eru langflestir styrkhafar staðsettir á landsbyggðinni. Áhersla styrkjanna er á verkefni sem stuðla að aukinni umhverfisvitund eða lýðheilsu, einkum með ungu kynslóðin í huga.
Hér má sjá tilkynningu í heild sinni:
Krónan hefur nú valið þau fjórtán verkefni sem hljóta samfélagsstyrk frá Krónunni fyrir árið 2025 og líkt og fyrri ár eru langflestir styrkhafar staðsettir á landsbyggðinni í nærsamfélagi verslana Krónunnar. Meðal þeirra sem hlutu styrk er Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum sem notaður verður til að efla iðkendur félagsins á aldrinum 10 til 18 ára.

Vilja koma í veg fyrir brottfall iðkenda á unglingsaldri
Fimleikafélagið Rán var stofnað árið 1989 og hefur iðkendum þess fjölgað hratt á síðustu árum. Í dag æfa þar um 320 börn á aldrinum 2 til 17 ára sem teljast um 36% allra barna á þessu aldursbili sem búsett eru í Vestmannaeyjum.
„Styrkurinn frá Krónunni mun nýtast okkur til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir brottfall úr hópnum en börn á aldrinum 10 til 18 ára eiga það til að hætta æfingum á þessum aldri. Við ætlum okkur að gera það með því að bjóða upp á fjölbreyttari æfingar, styrkja sjálfstraust iðkenda með áherslu á einstaklingsmiðaða endurgjöf sem krefst aukins mannafla og er það afar kostnaðarsamt fyrir félagið. Að auki viljum við veita þessum iðkendum næringarráðgjöf, fræðslu um andlega heilsu og aðstoð hvað varðar markmiðasetningu. Við þökkum Krónunni kærlega fyrir styrkinn,“ segir Thelma Hrund Kristjánsdóttir, gjaldkeri Ránar.
Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu
Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að aukinni umhverfisvitund eða lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Að auki veitir Krónan styrki til kaupa á svokölluðum Bambahúsum sem eru umhverfisvæn gróðurhús sem nýtist einna helst til að rækta grænmeti allt árið um kring, fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og mikilvægi þess að vita hvaðan einstök matvæli koma.
Eyjafréttir óskar Fimleikafélaginu Rán til hamingju með þetta.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst