Fimleikafélagið Rán hlýtur samfélagsstyrk Krónunnar
Fimleikafélagið Rán hlaut nýverið samfélagsstyrk frá Krónunnar.

Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum er meðal þeirra verkefna sem hlutu samfélagsstyrk frá Krónunni fyrir árið 2025.

Krónan hefur um árabil veitt samfélagsstyrki til verkefna í nærsamfélagi verslana sinna og líkt og fyrri ár eru langflestir styrkhafar staðsettir á landsbyggðinni. Áhersla styrkjanna er á verkefni sem stuðla að aukinni umhverfisvitund eða lýðheilsu, einkum með ungu kynslóðin í huga.

Hér má sjá tilkynningu í heild sinni:

Krónan hefur nú valið þau fjórtán verkefni sem hljóta samfélagsstyrk frá Krónunni fyrir árið 2025 og líkt og fyrri ár eru langflestir styrkhafar staðsettir á landsbyggðinni í nærsamfélagi verslana Krónunnar. Meðal þeirra sem hlutu styrk er Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum sem notaður verður til að efla iðkendur félagsins á aldrinum 10 til 18 ára. 

Thelma Hrund, gjaldkeri.

Vilja koma í veg fyrir brottfall iðkenda á unglingsaldri

Fimleikafélagið Rán var stofnað árið 1989 og hefur iðkendum þess fjölgað hratt á síðustu árum. Í dag æfa þar um 320 börn á aldrinum 2 til 17 ára sem teljast um 36% allra barna á þessu aldursbili sem búsett eru í Vestmannaeyjum.

„Styrkurinn frá Krónunni mun nýtast okkur til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir brottfall úr hópnum en börn á aldrinum 10 til 18 ára eiga það til að hætta æfingum á þessum aldri. Við ætlum okkur að gera það með því að bjóða upp á fjölbreyttari æfingar, styrkja sjálfstraust iðkenda með áherslu á einstaklingsmiðaða endurgjöf sem krefst aukins mannafla og er það afar kostnaðarsamt fyrir félagið. Að auki viljum við veita þessum iðkendum næringarráðgjöf, fræðslu um andlega heilsu og aðstoð hvað varðar markmiðasetningu. Við þökkum Krónunni kærlega fyrir styrkinn,“ segir Thelma Hrund Kristjánsdóttir, gjaldkeri Ránar.

Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu

Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að aukinni umhverfisvitund eða lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Að auki veitir Krónan styrki til kaupa á svokölluðum Bambahúsum sem eru umhverfisvæn gróðurhús sem nýtist einna helst til að rækta grænmeti allt árið um kring, fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og mikilvægi þess að vita hvaðan einstök matvæli koma.

Eyjafréttir óskar Fimleikafélaginu Rán til hamingju með þetta.

Nýjustu fréttir

Loðnuráðgjöf hækkuð í 197 þúsund tonn
Önnur sýning á lifandi kvikmyndum í Sagnheimum
Eyjafréttir í nýjum búningi á nýju ári
ÍBV tekur á móti Fram í kvöld
Elliði maður leiksins og Ísland í undanúrslit
Beðið með eftirvæntingu eftir loðnuráðgjöf
KR-ingur á láni til ÍBV
Elliði Snær skoraði átta mörk í jafntefli Íslands

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.