Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Jón Valgeirsson skipstjóri sagði í samtali við vefsíðu Síldarvinnslunnar að veiðin hefði verið mjög góð.
„Við byrjuðum á að taka tvö hol á Ingólfshöfða og þar fékkst blandaður afli en síðan var haldið á Skerbleyðuna út af Hornafirði. Þar var fín veiði og kvótavæn blanda. Menn eru alltaf að reyna að spara þorskinn. Í aflanum var mest af ýsu en síðan var þetta steinbítur, skarkoli og svolítið af þorski. Túrinn var stuttur. Við vorum um tvo sólarhringa að veiðum en einn og hálfur sólarhringur fór í stím. Í reyndinni var fínt veður allan túrinn en við fengum samt smá vestan kalda um tíma. Það er varla hægt að vera annað en sáttur við svona túr,” sagði Jón. Bergur hélt til veiða á ný í morgun, segir í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst