Ef Múhameð vill ekki fara til fjallsins verður fjallið að koma til Múhameðs er tilvitnun sem oft er gripið til og á við þingmenn Suðurkjördæmis og bæjarstjórn Vestmannaeyja.
Í nýliðinni kjördæmaviku á Alþingi var Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í kjördæminu sá eini sem sá sér fært að mæta til Eyja. Hefur verið öflugur talsmaður Vestmanneyinga á þingi og vill greinilega rækta sambandið.
„Það hafa verið annasamir dagar þessa vikuna. Hittum loks bæjarstjórnina í Eyjum í morgun, en þau komu til okkar að þessu sinni,“ segir Karl Gauti á Fésbókarsíðu sinni um fund fulltrúa í bæjarstjórn og nokkurra þingmanna kjördæmisins í gær. Í myndatexta segir; Fundur með fulltrúum úr bæjarstjórn í Eyjum; Frá vinstri Njáll Ragnarsson, Gísli Stefánsson, Guðrún, Íris Róbertsdóttir, Ása Berglind, Eyþór Harðarson, undirritaður, Ásthildur Lóa og Víðir.
Í hvoru hlutverkinu bæjarstjórn er skal ósagt látið en stundum er sagt, sá vægir sem vitið hefur meira. Í þessu tilfelli var það hún sem brá undir sig betri fótunum og sýndi með því að þau eru tilbúin að leggjast í ferðalög til að halda hagsmunum Vestmannaeyja á lofti.
Reynslan í kjördæmavikunni sýnir að ekki veitir af en gott er að vita af einum á þingi sem er til í að sinna okkur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst