„Mér finnst staðan í pólitíkinni ótrúlega spennandi. Við erum loksins laus við þessa ríkisstjórn sem hefur nákvæmlega ekkert gert til að verja heimili og minni fyrirtæki landsins fyrir því gengdarlausa vaxtaokri sem á þeim hefur dunið, heldur tók einfaldlega meðvitaða ákvörðun um að fórna þeim sem mest skulda og minnst eiga á altari bankanna,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi um stöðuna í stjórnmálum þegar kosningar til Alþingis eru á næsta leyti.
„Ríkisstjórnin fráfarandi hefur heldur ekkert gert fyrir þau sem höllustum fæti standa í samfélaginu, hvort sem um er að ræða aldraða eða öryrkja sem lepja mörg hver dauðann úr skel, heldur hefur hún hlaðið undir stórfyrirtæki, hvort sem um er að ræða fjármálastofnanir, (erlend) fyrirtæki í lagareldi eða stórútgerðina.
Að auki eru kerfin okkar að falla hvert af öðru, hvort sem um er að ræða skólakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, vegakerfið eða hvaðeina annað. Sama hvert litið er, það virkar ekkert sem skildi, nema náttúrlega fjármálakerfið sem er á yfirsnúning.
Ég sé tækifæri til að snúa bátnum við 30. nóvember og að Flokkur fólksins komist í ríkisstjórn sem tæki allar ákvarðanir út frá hagsmunum fólksins í landinu og léti stórfyrirtæki sem hafa í skjóli fjórflokksins komist upp með að blóðmjólka heimili landsins, ekki bara á undanförnum árum heldur áratugum, axla sína samfélagslegu ábyrgð og greiða eitthvað af sínum milljarða gróða í okkar sameiginlegu sjóði.
Flokkur fólksins þarf ekki að breyta málflutningi sínum þó kosningar standi fyrir dyrum. Barátta okkar fyrir réttlæti nær langt aftur fyrir það að vera kosin á þing og byggir á sannfæringu hjartans sem engin getur tekið frá okkur.
Þess vegna gefumst við aldrei upp og vilji kjósendur skoða þau mál sem Flokkur fólksins brennur fyrir nægir að skoða málaskrá okkar inni á alþingi.is, en við höfum á hverju þingi þessa kjördæmabils lagt fram margfalt fleiri mál en nokkur annar þingflokkur, jafnvel fleiri en ríkisstjórnin, en þau eru þegar orðin 73 á þessu þingi.
Það geta því verið bæði góðir og spennandi tímar framundan og ég vona svo sannarlega að kjósendur skoði gjörðir, efni og innhald í málflutningi flokka, en ekki bara umbúðir. Flokkur fólksins þarf að komast í ríkisstjórn, fyrir framtíðina og raunverulegar breytingar,“ segir Ásthildur Lóa.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst