Kvennalið ÍBV vann afar sannfærandi sigur á Haukum í 12. umferð Lengjudeildar kvenna í kvöld þegar liðin mættust á Hásteinsvelli. Leikurinn fór frekar rólega af stað en ÍBV var þó með yfirhöndina. Það tók Eyjakonur óvenju langan tíma að skora fyrsta mark leiksins en á 39. mínútu leiksins dró til tíðinda þegar Allison Grace Lowrey vann boltann fyrir utan teig Hauka og prjónaði sig í gegn. Hún tók skotið en það var varið og boltinn barst aftur til hennar og hún kláraði í autt markið. Staðan 1-0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik héldu Eyjakonur áfram að sækja og á 58. mínútu var það Allison Patricia Clark sem kom ÍBV í 2-0 með stórglæsilegu marki. Allison Grace Lowrey bætti svo við sínu öðru marki á 66. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Rögnu Söru Magnúsdóttur. Það var svo varamaðurinn Viktoija Zaicikova sem innsiglaði sigur ÍBV fimmtán mínútum fyrir leikslok með góðu skoti frá vítateigslínunni.
Þetta var sjötti sigurinn í röð hjá ÍBV í deildinni og frábært gengi þeirra heldur áfram. Þær eru núna komnar með 31 stig á toppnum. Haukar eru aftur á móti í neðri hlutanum með 13 stig.
Eyjakonur eiga afar mikilvægan leik í undanúrslitum Mjólkurbikarsins fimmtudaginn 31. júlí gegn Bestu deildar liði Breiðabliks. Leikurinn fer fram á Kópavogsvelli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst