N1-mót KA fór fram dagana 2. – 5. júlí en frá ÍBV tóku 44 strákar þátt í mótinu, 38 þeirra úr 5. flokki en 6 þeirra lánsmenn frá 6. flokki. Foreldrar fylgdu öllum strákum norður og er það mikilvægur þáttur í að láta mótið ganga sem best fyrir strákana sem upplifa mótið líkt og um heimsmeistaramót sé að ræða. Ég held að það sé óhætt að segja að við í 5. flokki ÍBV erum rík hvað það varðar að hafa góða foreldra sem fylgja strákunum okkar eftir í þeirra fótboltaiðkun.
Skipuleggjarar N1-mótsins eiga mikið hrós skilið en óhætt er að segja að um eitt flottasta mót landsins sé að ræða og var dómgæslan á mótinu einnig til fyrirmyndar þetta árið.
ÍBV sendi 5 lið til leiks á mótinu en voru þau öll nefnd eftir núverandi leikmönnum meistaraflokks karla hjá ÍBV, Felix Örn, Sigurður Arnar, Víðir Þorvarðarson, Bjarki Björn og Alex Freyr fengu lið nefnd eftir sér að þessu sinni.
Á fyrsta degi N1-mótsins er raðað upp í keppnir með forkeppni en á fimmtudeginum hefst mótið fyrir alvöru enda þá búið að flokka liðin í þær deildir/keppnir sem þau spila í út mótið. Þá tók við riðill með fjórum liðum þar sem allir leika við alla, þar fara tvö efstu liðin í 8-liða úrslit og liðin í sæti 3 og 4 fara í umspil um sæti 9-16. Það er skemmst frá því að segja að öll 5 ÍBV liðin komust áfram úr sínum riðli og þau gerðu sér öll lítið fyrir og komust áfram í undanúrslitin.
Strákarnir stóðu sig frábærlega
ÍBV – Felix Örn lék í brasilísku deildinni en þar lék liðið sex leiki en fjórir af þeim voru gegn þremur liðum Breiðabliks sem voru öll Blika liðin í þeirri brasilísku. Strákarnir í ÍBV – Felix áttu mjög góða daga á fimmtudegi, föstudegi og laugardegi. Fyrsti leikurinn var gegn Breiðablik – Tobias, þar var liðið 0:1 undir í hálfleik en með virkilega góðum síðari hálfleik tókst leikmönnum liðsins að snúa taflinu við og vinna leikinn 3:1, það gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi í deildinni. Næst kom stór sigur á Njarðvík og góður sigur gegn KR 2. Þar með tryggði liðið sér sigur í riðlinum og við tók leikur gegn Breiðablik – Höskuldur, eftir sigur þar var andstæðingurinn í undanúrslitunum Breiðablik – Anton Ari og með sigri þar tryggði liðið sér úrslitaleik í brasilísku deildinni gegn liðinu sem var andstæðingurinn í fyrsta leik deildarinnar, Breiðablik – Tobias. Leikurinn var hnífjafn og spennandi og endaði á vítakeppni. Í vítakeppninni varði Kristján Kári Kárason öll þrjú víti Blikanna og það var Nökkvi Dan Sindrason sem skoraði eina mark vítakeppninnar og tryggði ÍBV – Felix sigurinn í brasilísku deildinni. Að leik loknum var Kristján Kári valinn besti leikmaður leiksins og brasilísku deildarinnar hjá ÍBV. Í brasilísku deildinni skoruðu ÍBV strákarnir 27 mörk og fengu á sig 2, þeir unnu alla 6 leikina sína.
ÍBV – Siggi Arnar lék í forkeppni EF á miðvikudeginum og þar gekk liðinu mjög vel á grasinu á Akureyrarvelli, liðið vann sigur í nágrannaslagnum gegn KFR 2:1 í fyrsta leik mótsins, síðan voru næstu andstæðingar Sindri/Neisti en þar vann ÍBV 4:2 sigur áður en Vestramenn voru lagðir 4:1 í síðasta leik miðvikudagsins. Á fimmtudeginum voru strákarnir í ensku deildinni og í riðli með Völsurum, KA og Selfossi, eftir fyrstu tvo leikina þurftu strákarnir að treysta á að sækja jafn góð eða betri úrslit gegn Selfossi, sem voru með fullt hús stiga, heldur en KA myndu sækja gegn Valsmönnum. Það gekk eftir í sjónvarpsleik hjá strákunum gegn Selfossi þar sem þeir gerðu 2:2 jafntefli á meðan KA og Valur skyldu jöfn á vellinum við hliðina á. Það þýddi að strákarnir komust í 8-liða úrslitin. Frábær sigur á Víkingi R. fylgdi áður en Stjörnumenn sigruðu ÍBV – Siggi Arnar í undanúrslitunum. Strákarnir mættu því Selfossi á nýjan leik í leiknum um 3. sætið í ensku deildinni, strákarnir voru klárir frá fyrstu mínútu og unnu góðan sigur í enn einum nágrannaslagnum 4:1 í lokaleik sínum á mótinu en fyrir það fengu strákarnir bikar og verðlaunapening. Strákarnir skoruðu 24 mörk og fengu á sig 19 í sínum 9 leikjum í mótinu, þeir unnu 6, gerðu eitt jafntefli og töpuðu tveimur.
ÍBV – Víðir léku í hollensku deildinni og gerðu það með glæsibrag þar sem þeir unnu alla sína þrjá leiki í riðlinum með miklum yfirburðum gegn Hamri/Ægi, Haukum og KA – Guðjón Ernir, þar skoruðu strákarnir 22 mörk gegn þremur hjá andstæðingum sínum. Leikirnir urðu erfiðari og erfiðari þegar á leið en strákarnir unnu 1:0 sigur gegn Fjölni í 8-liða úrslitunum og áttu síðan leik gegn sterkum KR-ingum í undanúrslitunum. Þar unnu strákarnir 3:1 sigur og tryggðu sér úrslitaleik í hollensku deildinni þar sem FH-ingar voru andstæðingurinn. Eftir erfiða byrjun voru strákarnir of lengi að finna fótfestu í leiknum og voru FH-ingarnir of sterkir. Leikurinn tapaðist 1:5 og var Halldór Orri Þorgilsson valinn besti leikmaður ÍBV í leiknum. Strákarnir skoruðu 27 mörk og fengu á sig 9 í hollensku deildinni, unnu fimm leiki og töpuðu einum.
ÍBV – Bjarki Björn léku í japönsku deildinni með landsbyggðarliðunum KA, Sindri/Neisti og Reynir/Víðir, eftir sigur og tap í fyrstu tveimur leikjunum léku þeir gegn Reyni/Víði í síðasta leik riðilsins um sæti í 8-liða úrslitunum, strákarnir sýndu sínar bestu hliðar og unnu þann leik 6:3. Strákarnir þrefölduðu þar markafjöldann sinn í riðlinum í þessum eina leik og unnu sér inn leik gegn ÍR-ingum um sæti í undanúrslitunum. Strákarnir léku þar frábærlega og skoruðu fjögur falleg mörk gegn einungis tveimur frá Breiðhyltingum. Njarðvíkingar voru andstæðingurinn í undanúrslitaleiknum en skemmst er frá því að segja að þeir voru aðeins of sterkir fyrir frábæra leikmenn ÍBV – Bjarki Björn. Síðasti leikur strákanna var því gegn Stjörnuliði en þar sýndu strákarnir aftur sínar bestu hliðar og unnu 5:1 sigur og í leiðinni unnu þeir sér inn bikar og verðlaunapening fyrir árangurinn. Strákarnir skoruðu 18 mörk og fengu á sig 17 í japönsku deildinni og unnu fjóra af sínum sex leikjum.
léku í mexíkósku deildinni en þar voru andstæðingarnir KA, Grótta og FH. Fimmtudagurinn var góður hjá strákunum sem unnu sigra í markaleikjum gegn KA og Gróttu en áttu síðan leik um toppsæti riðilsins gegn FH, þar léku strákarnir frábærlega og unnu 3:1 sigur. Næsti andstæðingur var Snæfellsnes en strákarnir spiluðu þar frábærlega og unnu 4:2 sigur og tryggðu sér með því undanúrslitaleik gegn KFA. Í leiknum gegn KFA skiptust á skin og skúrir en strákarnir náðu með frábærum endaspretti að tryggja sér vítakeppni. Í vítakeppninni voru andstæðingarnir að austan sterkari og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum sem þeir svo unnu. Á meðan fóru strákarnir í ÍBV – Alex Freyr í leik um 3. sætið sem var grannaslagur gegn KFR, sá leikur fór alveg eins og undanúrslitaleikurinn í vítakeppni þar sem andstæðingarnir voru aftur sigurvegarar. Strákarnir því grátlega nálægt því að tryggja sér verðlaunapening í tvígang en allt kom fyrir ekki. Strákarnir skoruðu 28 mörk og fengu á sig 20, sigruðu fjóra af sínum sex leikjum í mexíkósku deildinni.
Einstök upplifun
Samtals léku ÍBV liðin 45 leiki á mótinu, unnu 27, gerðu 3 jafntefli og töpuðu 15. Þeir skoruðu 145 mörk og fengu á sig 95. Öll liðin léku 9 leiki, 3 í forkeppni og 6 í deild og útsláttarkeppni. Frábært mót sem var stórkostleg upplifun fyrir strákana og foreldrana sem fylgdu liðinu. Þjálfarar flokksins vilja fá að þakka foreldrum fyrir aðstoðina við mótið, sem og allt utanumhald sem var algjörlega í höndum foreldra á mótinu. Strákarnir fá einnig þakkir frá þjálfurum sem eru ánægðir með þeirra framlag og hugarfar á mótinu og í lífinu almennt.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst