Botnlið Eyjamanna tók á móti toppliði Skagamanna í leik í Pepsi Max-deild karla á Hásteinsvelli í dag. Fjöldi áhangenda fylgdi liði ÍA til Eyja í dag og mátti vart á milli sjá hvort fleiri Eyjamenn eða Skagamenn fylltu stúkurnar.
Skagamenn komust yfir strax á 6. mínútu eftir að Gilson Correia, varnarmaður ÍBV, missti boltann klaufalega við eigin markteig.
Eyjamenn jöfnuðu á 27. mínútu þegar Jonathan Glenn skoraði laglegt mark eftir sendingu frá Víði Þorvarðarsyni.
Á 45. mínútu tók Telmo Casthaneira aukaspyrnu fyrir Eyjamenn úti á miðjum velli beint á kollinn á Sigurði Arnari Magnússyni í markteig Skagamanna sem lagði hann fyrir fætur Breka Ómarssonar sem þrumaði boltanum í netið, 2-1.
Fyrri hálfleik lauk þó ekki þar því í uppbótartíma fékk Diogo Coelho, leikmaður ÍBV að lýta rauða spjaldið eftir að hafa gefið Halli Flosasyni olnbogaskot.
Eyjamenn voru því manni færri allan seinni hálfleikinn. Þrátt fyrir það bættu Eyjamenn við marki eftir níu mínútna leik í síðari hálfleik. Þar var á ferðinni Víðir Þorvarðarson sem skoraði með skalla eftir frábært upphlaup og fyrirgjöf frá Felix Erni Friðrikssyni.
Skagamönnum tókst að minnka muninn á 81. mínútu þegar Steinar Þorsteinsson skoraði með frábæru skoti við vítateigshorn Eyjamanna.
Þrátt fyrir að Skagamenn hefðu verið ansi nálægt að jafna urðu mörkin ekki fleiri og því fyrsti sigur ÍBV sem og fyrsta tap ÍA í Pepsi Max-deildinni staðreynd. Lokatölur ÍBV 3, ÍA 2.
Með sigrinum hífa Eyjamenn sig úr fallsæti upp í það tíunda með stigi meira en Víkingur og Valur en næsti leikur strákana er einmitt gegn Val á Hlíðarenda laugardaginn 15. júní.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst