Kvennalið ÍBV komst ansi nálægt því að komast í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þegar þær mættu Bestu deildar liði Breiðabliks á Kópavogsvelli í kvöld. Eyjakonur byrjuðu leikinn mun betur og komust í 0-1 strax á 10. mínútu leiksins. Kristín Klara Óskarsdóttir átti þá frábæra fyrirgjöf inn á teig Blika og Allison Grace Lowrey stökk manna hæst í teignum og stangaði boltann í netið. Eyjakonur voru nálægt því að komast í 0-2 aðeins þremur mínútum síðar þegar Allison Lowrey var sloppin ein í gegn eftir mistök í vörn Breiðabliks en skot hennar fór framhjá. Staðan því 0-1 í hálfleik.
ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn svipað og þann fyrri en strax á 48. mínútu voru Eyjakonur búnar að bæta við. Allison Clark átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Breiðabliks á Olgu Sevcovu sem kláraði glæsilega framhjá markverði Blika. ÍBV náði ekki að halda forskotinu lengi en Blikar voru búnar að jafna leikinn á fjögurra mínútna kafla og staðan allt í einu orðin 2-2. Elín Helena Karlsdóttir minnkaði muninn og Berglind Björg Þorvaldsdóttir jafnaði leikinn.
Allt stefndi í framlenginu en Blikastúlkur fengu hornspyrnu á lokamínútu leiksins og var það Barbára Sól Gísladóttir sem náði að koma boltanum í netið fyrir Blika. Lokatölur leiksins því 3-2 og Breiðablik fer í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þetta árið.
ÍBV stelpurnar og teymið geta gengið stolt frá þessum leik og sýndu að þær eiga heima í Bestu deildinni. Nú tekur við lokabaráttan í deildinni hjá stelpunum en þær eru efstar þar. Næsti leikur þeirra í deildinni er fimmtudaginn 7. ágúst gegn Aftureldingu kl. 18:00 á Hásteinsvelli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst