Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir næsta ár fór fram á síðasta fundi bæjarstjórnar. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri flutti þar framsögu um fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2025.
Fram kom í framsögu bæjarstjóra að staða bæjarsjóðs Vestmannaeyja verði áfram traust, þrátt fyrir að sveitarfélög séu mörg hver nú að glíma við áskoranir í rekstri og fjármögnun lögbundinna verkefna, með tilheyrandi lausafjárvanda, rekstrartapi og skuldasöfnun. Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu í áætluninni, en tekjur eru þó alltaf varlega áætlaðar og það er svo líka í þessari áætlun. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir um 299,7m.kr. rekstrarafkomu á A- hluta og um 510 m.kr. rekstrarafkomu samstæðunnar, en áætlunin getur tekið einhverjum breytingum milli umræðna.
Gert er ráð fyrir sömu útsvarsprósentu milli ára, 14,91%, en álagsprósenta fasteignaskatts lækkar á íbúðarhúsnæði í sjötta skiptið á sjö árum og á atvinnuhúsnæði í fimmta skiptið á sex árum. Mikilvægt er að stilla opinberum álögum í hóf til hagsbóta fyrir íbúa.
Í fjárhagsáætluninni er sömuleiðis gripið til margháttaðra aðgerða til að bæta þjónustu sveitarfélagsins. Áfram er gert ráð fyrir 50.000 kr. frístundastyrk fyrir hvert barn, 2-18 ára. Áfram verður stuðningur við markaðssetningu Vestmannaeyja. Gert er ráð fyrir heilsueflingu eldri borgara, rannsóknar- og þróunarverkefninu “Kveikjum neistann”, verkefni um snemmtæka íhlutun og eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi. Veittar verða 10 m.kr. í „Viltu hafa áhrif?“ menninga-, lista- og tómstundasjóð.
Haldið verður áfram að deiliskipuleggja ný hverfi og áfram verður fjármagni veitt til umhverfismála, uppbyggingu leikvalla og skólalóða, aðgengismála, orkuskipta hafnarinnar o.fl.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að hægja á framkvæmdahraða og að einbeita sér að færri framkvæmdum. Farið verður yfir framkvæmdir sveitarfélagsins til næstu ára við seinni umræðu og farið ítarlega yfir og áhersluverkefni. Áfram verður aðhalds og hagkvæmni gætt í rekstri sveitarfélagsins, en áhersla lögð á góða þjónustu við íbúa. Vestmannaeyjar verða áfram góður búsetukostur fyrir fjölskyldufólk.
Í afgreiðslu voru lagðar fram tvær tillögur. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á milli ára úr 0,250% og verði 0,235% (A flokki), hlutfallið verði óbreytt á opinberar stofnanir (B flokki), þ.e. 1,320% og að hlutfallið lækki úr 1,350% í 1,325% á annað húsnæði (C flokki), þ.m.t. atvinnuhúsnæði. Með þessu verður dregið úr áhrifum hækkunar fasteignamats á íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.
Bæjarráð leggur til þá breytingu á innheimtu fasteignagjalda að endurálagning verði gerð í júní ár hvert á alla flokka (A-B-C). Afsláttur af fasteignagjöldum einstaklinga verður endurreiknaður miðað við skattframtal ársins á undan. Er þetta breytt verklag við að endurskoða álagningu þar sem álagningin er endurreiknuð hjá öllum, ekki eingöngu hjá þeim sem þess óska.
Í seinni tillögunni var lagt til að útsvarsprósenta verði 14,91%. Báðar tillögur voru samþykktar samhljóða.
Í framhaldinu lagði minnihlutinn fram bókun. Þar segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ávallt haft að leiðarljósi og lagt til að fjármunum verði varið sem best.
Mikilvægt er að endurskoða sífellt hvort hægt sé að hagræða í rekstri bæjarins, endurskoða og uppfæra starfslýsingar þannig að við missum ekki af möguleikum til hagræðingar. Þetta hljómar oft eins og það sé verið að ógna tilveru starfsmanna Vestmannaeyjabæjar en svo er ekki. Það er ætíð nauðsynlegt að fólk minni sig á að við erum að sýsla með skattfé sem tekið er af bæjarbúum og það er ekki lögmál að með nýjum verkefnum þurfi að fjölga starfsfólki. Í ljósi þessa teljum við ekki tímabært að samþykkja aukið fjármagn í nýtt stöðugildi eins og kynnt hefur verið við gerð fjárhagsáætlunarinnar.
Í bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista segir að fjárhagsleg staða bæjarsjóðs sé sterk og áfram verður haldið með uppbyggingu og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins.
Veltufé hækkar en á sama tíma aukast fastafjármunir. Það ber merki um traustan rekstur. Í fjárhagsáætluninni er lögð áfram áhersla á ábyrgan rekstur þar sem gætt er aðhalds og varfærni.
Áfram verður áhersla lögð á fræðslu- og fjölskyldumál. Markmið meirihluta E- og H- lista er að þær áherslur og breytingar sem gerðar hafa verið á rekstri bæjarfélagsins á undanförnum árum séu til að bæta þjónustu við íbúa og gera sveitarfélaginu kleift að sinna nauðsynlegum og lögbundnum verkefnum.
Þeim fjölgar sífellt sem horfa til „Kveikjum neistann“ sem nýrrar nálgunar í grunnskólastarfi. Verkefnið hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli og mikil gróska verið í leik- og grunnskóla í Vestmannaeyjum.
Sú mikla uppbygging sem verið hefur í atvinnulífi undafarin ár, og þau fjölmörgu verkefni sem Vestmannaeyjabær hefur farið í á undanförnum árum, gera bæinn að spennandi búsetukosti og fjölskylduvænna samfélagi.
Hér að neðan má sjá lykiltölur í fjárhagsáætlun 2025
Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Vestmannaeyja 2025:
Tekjur alls: kr. 6.460.649.000
Gjöld alls fyrir fjármagnsliði: kr. 6.245.766.000
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: kr. 299.703.000
Veltufé frá rekstri: kr. 972.317.000
Afborganir langtímalána: kr. 0
Handbært fé í árslok: kr. 1.706.640.000
Fjárhagsáætlun B-hluta bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2025:
Rekstrarniðurstaða Hafnarsjóðs: kr. 104.668.000
Rekstrarniðurstaða Vatnsveitu: kr. 0
Rekstrarniðurstaða Fráveitu: kr. 140.911.000
Rekstrarniðurstaða Félagslegra íbúða: kr. 0
Rekstrarniðurstaða Náttúrustofu Suðurlands, tap: kr. -276.000
Rekstrarniðurstaða Eygló eignarhaldsfélags ehf., tap: kr. -1.778.000
Rekstrarniðurstaða Herjólfs ohf., tap: kr. -32.929.000
Veltufé frá rekstri: kr. 418.509.000
Afborganir langtímalána: kr. 8.926.000
Fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2025:
Tekjur alls: kr. 9.636.469.000
Gjöld alls: kr. 9.210.538.000
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: kr. 510.300.000
Veltufé frá rekstri: kr. 1.390.826.000
Afborganir langtímalána: kr. 8.926.000
Handbært fé í árslok: kr. 1.706.640.000
Samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa að vísa fjárhagsáætlun 2025 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst