Handbolti, loðnukvóti og prófkjör
eythor_h_cr
Eyþór Harðarson
Eythor H An Bakgr

Aðsend grein

Eyþór Harðarson

Fyrir utan veðrið og fjölda klukkustunda þar sem dagsbirtan lætur sjá sig, er janúar sennilega mest spennandi mánuður ársins í Vestmannaeyjum.

Um leið og landsliðið í handbolta byrjaði Evrópumótið þá hófst á sama tíma loðnumæling á vegum Hafrannsóknarstofnunarinnar og útgerða.

Við eigum jú Elliða sem lykilmann á handboltavellinum, Kára Kristján í Stofunni með handboltaspjallið og Heimaey VE‑1 í loðnuleiðangrinum.

Stuðningur við landsliðið

Sjálfur fór ég í góðum hópi Íslendinga út til Svíþjóðar til að styðja strákana og hjálpa til við að koma þeim upp úr riðlinum—og fullyrði að ég hafi haft áhrif á dómara í einum leiknum sem hafði afgerandi áhrif á gang leiksins. Það er bara þannig. Samvinna Eyjamanna skilar árangri, sama hvort hún sé á sjó, í stúkunni eða inni á vellinum.

Prófkjör í Sjálfstæðisflokknum

Um það bil sem milliriðlar fóru í gang, þá samþykktu Sjálfstæðismenn í Eyjum að prófkjör yrði leiðin til að velja á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins hafa unnið á kjörtímabilinu í minnihluta, og það verður að segjast eins og er að það er svipuð stemming í því eins og að vera á varamannabekk í handbolta. Engu að síður þarf að halda áfram og hafa trú á framtíðina.

Traust og samstarf

Á sama tíma hefur þetta kjörtímabil kennt okkur margt. Ég tel að við höfum áunnið okkur traust bæjarbúa, ekki síst vegna þess að traust hefur aukist á milli bæjarfulltrúa þvert á flokka. Þessi samvinna hefur skilað sér í betri ákvarðanatöku og sterkari stjórn bæjarins. Það er grunnurinn sem við ætlum að byggja á fyrir komandi kosningar.

Að hvetja nýtt fólk til þátttöku

Núna stendur yfir mikilvæg vinna við að opna dyrnar, hvetja fólk sem hefur áhuga á sveitarstjórnarmálum til að stíga fram, taka þátt í prófkjörinu eða bjóða sig fram til starfa innan Sjálfstæðisflokksins. Við þurfum fólk sem hefur metnað, hugmyndir og hjarta fyrir bæjarfélaginu.

Árangur kemur af samvinnu

Í mínum huga eru spennandi vikur framundan í Eyjum, þar sem loðnukvótinn hefur verið fjórfaldaður frá fyrstu úthlutun fyrr í vetur og Elliði og félagar komnir í undanúrslit evrópumótsins í handbolta.

Nú erum við á tímapunkti þar sem bæði handboltinn og loðnan minna okkur á að árangur kemur ekki af sjálfu sér. Hann kemur þegar fólk leggur hönd á plóg, treystir hvert öðru og horfir í sömu átt. Það sama gildir um sveitarstjórnarmálin í Eyjum. Við höfum fengið að spila nokkra erfiða leiki í minnihluta, en höfum sýnt að við mætum til leiks, stöndum í lappirnar og styðjum verkefni sem eru bæjarfélaginu til heilla.

Tækifæri fyrir nýja leikmenn

Framundan er prófkjör sem skiptir máli—ekki bara fyrir flokkinn heldur fyrir bæinn okkar. Þetta er rétti tíminn fyrir nýtt fólk að stíga fram, fólk sem vill vinna með okkur, takast á við stóru málin og byggja upp sterkara samfélag.

 

Eyþór Harðarson

Bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.

Nýjustu fréttir

Handbolti, loðnukvóti og prófkjör
Áskorun til Vestmannaeyinga 
Skipar sjö manna fagráð
Skráning stendur yfir í Lífshlaupið
Foreldrar Elliða stolt á leið til Danmerkur
Dýpi ekki nægjanlegt í Landeyjahöfn — Herjólfur fer til Þorlákshafnar
Sigurmark ÍBV kom í blálokin gegn Fram
Andlát: Þórunn Pálsdóttir

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.