Hátíðarfundur bæjarstjórnar Vestmannaeyja fór fram í gær 3. júlí í Eldheimum í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá lokum eldsumbrota á Heimaey.
Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, flutti ávarp í tilefni þess sem einkenndist af þakklæti til allra þeirra einstaklinga sem stóðu vaktina og unnu myrkranna á milli við björgunarstörf og svo síðar uppbygginu. En jafnframt þakklæti til allra þeirra þjóða sem studdu svo myndarlega við bakið á Vestmannaeyingum, fyrst með aðstoð bandaríska hersins sem færði Vestmannaeyingum sjódælur, en svo með ómetanlegri og rausnarlegri fjárhagsaðstoð ýmissa annarra þjóða og sérstaklega Norðurlandanna.
Að loknu ávarpi forseta bæjarstjórnar og í tilefni þessara tímamóta, færði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, þeim Páli Zóphóníassyni og Guðmundi Karlssyni blómvendi, sem tákn um þakklæti til þeirra fjölmörgu einstaklinga sem stjórnuðu og störfuðu við björgunaraðgerðir meðan á eldgosinu stóð og uppbyggingu Vestmannaeyja á árunum sem eftir fylgdu. Það er hverjum þeim er þekkir til ljóst, að án þessa óeigingjörnu starfa og harðduglega fólks sem stóð í stafni, hefði samfélagið ekki orðið jafn blómlegt og raunin varð. Framlag þessarar einstaklinga markar stóran þátt í sögu og velferð Vestmannaeyja og verður seint fullþakkað.
Páll Zóphóníasson þakkaði bæjarstjórn sýndan hlýhug og rifjaði upp atburðarrásina í tengslum við upphaf og þróun eldgossins í Vestmannaeyjum. Jafnframt þakkaði hann þeim fjölmörgu einstaklingum sem lögðu hönd á plóg við björgunarstörf og uppbyggingu. Auk þess minntist Páll goslokanna og yfirlýsingu um endalok eldgossins í Vestmannaeyjum, sem og bæjarstjórnarfund sem haldinn var þann 3. júlí 1973.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst