Rannsóknar- og þróunarverkefnið Kveikjum neistann lauk nýverið sínu fjórða ári í GRV. Aðalmarkmið verkefnisins er að efla skólastarf, bæta líðan og árangur nemenda í skólanum. Verið er að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir og veita þeim áskoranir miðað við færni þannig að þeir vaxi og dafni í sínu námi.
Helga Sigrún Þórsdóttir, deildarstjóri fræðslu og uppeldismála, fór yfir niðurstöður mælinga á síðasta fundi fræðsluráðs. Fram kemur í fundargerð að mælingar og eftirfylgni sé einn af lykilþáttum verkefnisins en þannig er fylgst náið með stöðu hvers og eins nemanda og brugðist við ef þörf er á. Í þróunarverkefni eins og þessu eru margar áskoranir og hafa kennarar og starfsfólk skólans lagt sitt af mörkum til að efla skólastarfið enn frekar. Næsta vetur mun fyrsti árgangurinn sem tók þátt í verkefninu fara yfir í GRV-BS en þar hafa starfsfólk skólans verið að undirbúa sig fyrir komandi vetur.
Foreldrar barna í GRV hafa sýnt verkefninu áhuga og hefur Bókasafn Vestmannaeyja fundið fyrir töluverðri aukningu á áhuga barna á lestri eftir að verkefnið fór af stað. Það má því með sanni segja að Kveikjum neistann hefur haft mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í Vestmanneyjum og verður gaman að fylgjast áfram með verkefninu þróast og dafna.
Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið þakki kynninguna og lýsir yfir mikilli ánægju með verkefnið í heild sinni. Spennandi verður að fylgjast með verkefninu næsta skólaár áfram þegar það flyst yfir í GRV-BS.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst