„Við fórum út 22. maí og tókum þátt í Gautaborgarhlaupinu sem er árlegt hlaup,“ sagði Magnús Bragason en hann og Adda Sigurðardóttir, kona hans, hlupu bæði hálfmaraþon í hálfgerðri karnivalstemmingu. „Í ár var slegið met því 58 þúsund manns voru skráðir til keppni en hlaupið er talið vera fjölmennasta hálfmaraþonhlaup í heimi. Það var sól og 25 stiga hiti og náðu ekki allir að klára. Stemmingin var svakaleg en þegar um 3 kílómetrar voru eftir byrjaði liðið að lognast út af og sjúkrabílar höfðu ekki undan að keyra fólk, “ sagði Magnús og bætir því að fréttir í blöðum hafi m.a. fjallað um að fólk hafi hnigið í ómegin og sjúkrabílar ekki haft undan að hirða það upp.