Utanríkisráðherra tilkynnti í dag að hún hefði undirritað samning við Bretland, Noreg og Færeyjar um skiptingu hlutdeildar á milli ríkjanna fjögurra í makríl. Samkomulagið gildir til ársloka 2028. Ekki er um heildstæðan samning strandríkja í makríl að ræða því utan samnings standa Grænland og Evrópusambandið, segir í tilkynningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Þar segir jafnframt að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi árétti afstöðu sína um mikilvægi þess að ná heildstæðum og sanngjörnum samningi á milli allra strandríkja. Svo er ekki í þessu tilviki. Samtökin lýsa yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun ráðherra og telja verulega hagsmuni Íslands og áralanga baráttu fyrir sanngjörnum strandríkjahlut landsins að litlu höfð.
Afstaða SFS byggist í stuttu máli á eftirgreindu:
Í samkomulaginu er raunverulegur hlutur Íslands 10,5%. Það er rúmlega þriðjungslækkun frá 16,5% hlut Íslands undanfarin ár. Ekkert hinna þriggja ríkjanna hefur tekið á sig svo umfangsmikla lækkun á hlut sínum. Það veldur sérstökum vonbrigðum að íslensk stjórnvöld hafi fallist á að Ísland væri með lægri hlut en Færeyjar. Fátt ef nokkuð styður þá niðurstöðu og nægir þar að líta til viðveru makríls í lögsögu ríkjanna í árlegum sumarleiðangri rannsóknaskipa undanfarna tvo áratugi.
Samkvæmt samkomulaginu fær Ísland aðgang til að veiða 60% aflamarks innan norskrar lögsögu og 30% innan færeyskrar lögsögu. Það er almennt jákvætt að fá aukinn sveigjanleika til veiða með aðgangi að lögsögu annarra ríkja, en skilyrði Norðmanna eru mjög skaðleg íslenskum hagsmunum. Þannig ber íslenskum skipum að bjóða 2/3 hluta aflans upp í gegnum Norska síldarsölusamlagið. Þar er um einokunarmarkað í eigu norskra útgerða að ræða og lögmæti hans sætir nú sérstakri rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA. Í raun tryggir þetta skilyrði að norskar vinnslur fá verulegt forskot til kaupa á íslenskum afla vegna nálægðar við miðin. Hætt er við að með þessu fyrirkomulagi bresti forsendur fyrir vinnslu hlutaðeigandi afla hér heima og þar með tapist verðmæt störf, tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar og stórt skattspor við vinnslu hráefnisins á Íslandi. Mikilvægum þætti í samkeppnishæfni Íslands, samþættingu veiða og vinnslu, er aukinheldur stefnt í hættu.
Ísland er í fararbroddi þegar kemur að ábyrgum veiðum og hefur talað fyrir því að stuðst sé við vísindalega ráðgjöf. Ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins um veiðar á makríl fyrir komandi ár hljóðar upp á 174.357 tonn. Þrátt fyrir að hér sé um verulegan niðurskurð að ræða frá fyrra ári, hefur atvinnugreinin hingað til stutt íslensk stjórnvöld í því að samþykkja ráðgjöfina, enda ekki við önnur samþykkt vísindi að styðjast. Frá þessari grundvallarafstöðu hafa íslensk stjórnvöld nú vikið og skipað sér í flokk með þjóðum sem ætla að virða fyrirliggjandi ráðgjöf að vettugi. Skautað er létt framhjá þessum mikilvæga þætti í tilkynningu ráðherra í morgun.
Samkomulagið felur í sér að miða skuli við 299.010 tonna heildarafla. Séu veiðar ríkja sem standa utan samkomulagsins teknar með verður heildarafli að líkindum um 385 þúsund tonn. Það þýðir að veiðar verða ríflega 120% umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Samkomulagið festir þar með í sessi ofveiði makríls og viðheldur verulegri hættu á hruni stofnsins.
Samningafundir fóru fram án atvinnugreinarinnar, en alla jafna sitja fulltrúar atvinnugreinarinnar í sendinefndum allra ríkja á strandríkjafundum. Atvinnugreinin var upplýst um gang mála framan af en undanfarnar vikur hafa takmarkaðar upplýsingar verið veittar. SFS lýstu áhyggjum af þessu, enda þekkir engin betur en atvinnugreinin verðmæta- og áhrifamat veiða, vinnslu og útflutnings. Til þessa hefur ávallt verið tryggt að hagsmunaaðilar eigi aðild að viðræðum, á Íslandi sem og í öðrum löndum.
Að lokum
Það má með sanngirni velta þeirri spurningu fyrir sér hvað hafi réttlætt svo verulega eftirgjöf af hagsmunum lands og þjóðar. Sjálfbærar veiðar, samþætting veiða og vinnslu og veruleg verðmætasköpun með fullvinnslu afurða hér heima hafa verið ráðandi þættir í ríku framlagi sjávarútvegs til hagvaxtar og góðra lífskjara hér á landi. Nýgert samkomulag vegur því miður þungt að þessum mikilvægu styrkleikum og færir grannþjóðum veruleg íslensk verðmæti að ósekju, segir að endingu í tilkynningu SFS.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst