Síðastliðið vor þegar undirbúningur Hljómeyjar var í fullum gangi kom upp sú hugmynd af færa þeim húsráðendum sem hafa opnað stofur sínar þakklætisvott fyrir þeirra framlag til Hljómeyjar-hátíðarinnar.
Hljómeyjarbræður fóru af stað og hittu listakonuna Jóný til að bera undir hana hvort við gætum unnið saman til að útbúa einstakt listaverk fyrir hvern og einn. Jóný tók ákaflega vel í verkefnið og var í kjölfarið handsalað samstarf um að Jóný yrði formlega listamaður Hljómeyjar. Það er mikill heiður fyrir hátíðina að fá svo hæfileikaríkan listamann til samstarfs, sem verður eflaust uppspretta ýmissa verka í komandi framtíð. Jóný tók sig til og hannaði og handsmíðaði einstaka platta fyrir alla húsráðendur sem tekið hafa þátt. Plattarnir eru ártalsmerktir og þemað tónlist og Vestmannaeyjar.
Hljómeyjarbræður fóru af stað sl. sunnudag og heimsóttu alla húsráðendur sem voru heima og afhentu þeim þakklætisvottinn. Það er nefnilega ekki hægt að halda Hljómey án allra þeirra frábæru aðila sem eru tilbúin að opna stofur sínar fyrir tónlistarfólkinu okkar. Heimafólkið okkar á því ekkert minna í hátíðinni en skipuleggjendurnir. Það mun taka tíma að ná í alla okkar frábæru húsráðendur – bara hluti þeirra var heim þegar farið var af stað. Við viljum þakka Vestmannaeyingum fyrir frábærar móttökur, fyrir einstaka gleði og gestrisni á heimsmælikvarða.
Skipulagning á næstu hátíð er komin á fullt og mikil tilhlökkun er til staðar. Fyrstu tónlistarmenn verða kynntir inn um miðjan janúar nk. og miðasala mun hefjast í byrjun febrúar. Spáin er frábær!
Sjáumst á Hljómey 25. apríl 2025, segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst