Einar Gunnarsson, skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja skrifar pistil um reynslu sína af Kveikjum neistann verkefninu.
Eftir 23 ár í skólastarfi, bæði sem kennari og skólastjórnandi, hef ég séð mörg verkefni koma og fara í íslensku skólakerfi. Kveikjum neistann kom inn í Grunnskóla Vestmannaeyja fyrir fimm árum þegar ég var aðstoðarskólastjóri og get ég fullyrt að það er áhrifaríkasta verkefni sem hefur komið inn á borð mitt á mínum starfsferli.
Í verkefninu hafa verið þróuð mælitæki sem segja til um grunnfærni nemenda í lestri og stærðfræði og framundan verða fleiri mælitæki þróuð. Með góðum og einföldum mælitækjum fá kennarar, foreldrar, nemendur og skólastjórnendur skýra mynd af stöðu hvers nemanda og geta brugðist við á faglegan og samstilltann hátt. Á þann hátt getum við styrkt nemendur okkar og eflt í grunnfærni en áskoranirnar eru raunverulegar miðað við árangur íslenskra nemenda á PISA prófunum undanfarin ár.
Það sem hefur einnig komið í ljós er að líðan nemenda mælist mjög góð í samanburði við aðra hópa. Við erum sömuleiðis að vinna markvisst með hugarfar nemenda og byggt upp færni hjá þeim til að sýna m.a þrautseigju og hafa trú á eigin getu, slík færni er heldur betur mikilvæg í nútímasamfélagi.
Ég hlakka mjög til að halda áfram að þróa hugmyndafræði Kveikjum neistann með því frábæra starfsfólki sem við í Grunnskóla Vestmannaeyja erum svo heppin að hafa.
Bestu kveðjur, Einar Gunnarsson
Skólastjóri GRV-Barnaskóli




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst