Krabbavörn Vestmannaeyja stendur fyrir hinni árlegu ljósagöngu á Eldfell í dag klukkan 18:00. Markmið göngunnar er að sýna samstöðu með þeim sem greinst hafa með krabbamein, heiðra batahetjur og minnast þeirra sem hafa látist af völdum sjúkdómsins.
Gengið verður upp Eldfell og er þátttakendum boðið að mynda ljósaröð upp fjallið með höfuðljósum, vasaljósum eða ljósum á síma þannig að til verði svokallaður „ljósafoss“.
Safnast verður saman við rætur Eldfells, á bílastæðinu sem snýr að Helgafelli. Að göngu lokinni er öllum boðið að koma á Stakkó þar sem gestir geta þegið heitt kakó og kveikt á kerti til að minnast þeirra sem hafa látist úr krabbameini og þeirra sem nú glíma við sjúkdóminn. Kerti verða til staðar á staðnum og verður Arnardrangur opinn.
Í tilkynningu Krabbavarnar segir að ákveðið sé að ganga á Eldfell í hvaða veðri sem er, enda sé það lýsandi fyrir þá baráttu sem einstaklingar þurfa að ganga í gegnum eftir krabbameinsgreiningu.
Krabbavörn Vestmannaeyja hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að mæta og taka þátt í þessari samstöðugöngu. „Við vonumst til að sjá sem flesta,“ segir í tilkynningu samtakanna.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst