Vestmannaeyjatogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu í Þorlákshöfn í dag. Aflinn mun að mestu leyti fara til vinnslu hjá Vísi í Grindavík. Um er að ræða síðustu löndun skipanna fyrir jól. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana og spurði frétta um veiðiferðina.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, lét vel af sér og var sáttur við túrinn. „Við vorum að veiðum fyrir sunnan land. Það var byrjað á Ingólfshöfðanum og þar var ágætis veiði. Síðan var haldið á Víkina, en þar var lítið að hafa. Þá var siglt á Pétursey og þar fékkst ágætis afli í nótt. Aflinn er að mestu þorskur og dálítill ufsi með. Þorskurinn er stór og fallegur og mun örugglega henta vel til vinnslu,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, lét einnig vel af sér. „Við vorum að veiðum á Höfðanum og Vík og Pétursey. Það gekk ágætlega að veiða og við erum næstum með fullt skip. Það var í reynd fínasta veður á meðan á veiðunum stóð. Það er landað í Þorlákshöfn því fiskurinn þarf að komast til vinnslu í Grindavík hratt og örugglega,” sagði Egill Guðni. Ráðgert er að Bergey og Vestmannaey haldi til veiða á ný strax að lokinni jólahátíð og landi í Eyjum þann 30. eða 31. desember.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst