Felix Örn Friðriksson, varnamaðurinn snjalli fór frá ÍBV í sumar til Danmerkur og spilar nú með úrvalsdeildarliðinu Vejle. Felix Örn er fæddur 1999 á að baki 54 leiki fyrir ÍBV og hefur skorað eitt mark. Auk þess á hann að baki tvo landsleiki fyrir A-landslið Íslands en einnig hefur hann leikið með yngri landsliðum. Hann var á æfingum með U21 á Íslandi í vikunni en Ísland vann öruggan 5:2-sigur á Eistlandi á Kópavogsvelli í dag.
Eftir átta umferðir í dönsku úrvalsdeildinni eru nýliðar Vejle í 12. sæti af 14 liðum í deildinni en Felix þreytti frumraun sína með liðinu í síðustu umferð þegar hann kom inn á sem varamaður í markalausu jafntefli á móti Horsens. Felix sagði í samtali við mbl.is að honum líki vel hjá Vejle, „Þetta er flott lið á flottum stað. Það var mikið stökk að fara frá ÍBV til Vejle. Hraðinn og tempóið er mun meira en í Pepsi-deildinni. Ég er búinn að vera að spila með varaliðinu en hef alltaf verið í hópi með aðalliðinu og fékk mínar fyrstu mínútur í síðustu umferð. Það er erfitt að koma inn í nýtt lið en ég sé fram á að fá fleiri mínútur,“ sagði Felix Örn í samtali við mbl.is.
Felix segist fylgjast grannt með sínum gömlu félögum í ÍBV en flest bendir til þess að Eyjamenn haldi sæti sínu í Pepsi-deildinni. „Ég hef fulla trú á ÍBV-liðinu og ég hef verið mjög ánægður með spilamennsku liðsins eftir að ég fór frá því. Ég fór frá liðinu þegar það var í erfiðri stöðu og fannst það mjög leiðinlegt en ég var ánægður með hvernig þeir tóku í þetta og allir í Vestmannaeyjum.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst