Mikilvægt að grípa alla sem við getum
asm_vill.jpg
Ásmundur Friðriksson, þingmaður ræðir hér við kollega sinn, Grindvíkinginn Vilhjálm Árnason. Eyjar.net/Tryggvi Már

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Suður­kjör­dæm­is var á per­sónu­leg­um nót­um í ræðustól Alþing­is í gær þegar þing­menn ræddu stöðuna í Grinda­vík í fram­haldi af munn­legri skýrslu for­sæt­is­ráðherra um stöðu bæjarfélagsins. Grípum niður í ræðu Ásmundar.

„Hjarta mitt er fullt af djúpri samúð í garð Grindvíkinga. Æðruleysi þeirra er ótrúlegt í þeim hremmingum sem þeir eru að lenda í núna og það er afar mikilvægt fyrir okkur í þinginu að við tökum fast á málum og flýtum okkur eins hratt og hægt er. En ég veit að það er alveg sama hvað við munum hlaupa hratt í þinginu, þeim mun finnast spretturinn hægur. Þannig er það þegar maður býr við mikla örbirgð eða örvæntingu og reiði yfir stöðu sinni, þá er tíminn ótrúlega lengi að líða. En það er mikil reisn yfir þinginu í dag þegar við erum saman, hver einasti maður, að vinna að þessum málum fyrir hönd Grindvíkinga og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um að við mættum gera það oftar af því að þá liði okkur oftar betur en oft gerist hér á þessum stað.

Ég var 17 ára þegar ég stóð í þeim sporum sem margir Grindvíkingar hafa staðið í núna og horfði upp á húsin brenna, húsin fara undir hraun, hús foreldra minna, og hvernig heilsu móður minnar hrakaði ár frá ári, áratugum saman þangað til ekki varð neitt við ráðið. Þetta klingir í höfði mínu núna þegar þessi stund er runnin upp og Grindvíkingar eru að berjast við það sama: Við verðum að bjarga þeim sem berjast við sálarkreppu, sem missa hús sín og heimili, missa allt sitt öryggi. Öryggið er heimilið, jafnvel þótt maður þurfi að flýja heimilið um stundarsakir þá sækjum við öryggið þangað. Það er alveg ótrúlegt fyrir ungar konur að þurfa að yfirgefa heimili sitt með börn og buru og eiga kannski ekki afturkvæmt þangað. Það reynir á og það er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í þinginu að grípa alla sem við getum.

Þess vegna var það að við í velferðarnefnd óskuðum eftir því strax fyrir jólin að við hefðum forgöngu í þessu máli, værum á undan og óskuðum eftir samstarfi við félagsmálayfirvöld á Suðurnesjum og á Reykjanesi, við Rauða krossinn og þá sérfræðinga sem hafa verið að aðstoða Grindvíkinga, okkar besta fólk, um að koma á fund nefndarinnar og ræða þessi mál og fara yfir þau með okkur í nefndinni, þar sem líka er algjör samstaða í öllum þessum málum. Það er mjög gefandi fyrir okkur öll og ég þakka fyrir það hér á þessari stundu. Það er gott fyrir Grindvíkinga og okkur öll að vita að það ríkir algjör samstaða.

Ég er búinn að vera tíu ár í velferðarnefnd og ég hef aldrei átt erfiðari fund. Það er svo rosalegt að vera að fjalla um málefni dagsins í dag og sjá ekki fram úr þeim, hvað komi upp úr hattinum þegar verður búið að skoða stöðu fólksins. Það er svo mikilvægt að við grípum hvern einasta mann sem er að fyllast af myrkri í hjarta sínu. Það kostar kannski einhverja peninga en það kostar allan peninginn ef við náum ekki að grípa þá, þá fyrst fer það að kosta. Það mun kosta samfélagið, það mun kosta okkur öll, það kostar líf þessa fólks sem er svo mikilvægt, fólkið í Grindavík sem hefur fengið allt þetta hrós hér í dag og á það svo mikið skilið. Það á ekkert annað skilið frá okkur en að við hjálpum því fyrr. Ég þakka líka fyrir Stinningskalda sem mætir á hvern körfuboltaleik hjá Grindvíkingum og hvetur sitt lið til dáða. Það sýnir líka mikla reisn í samfélaginu sem gefst aldrei upp. Áfram Grindavík.“

Nýjustu fréttir

Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag
„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.