Elsku mamma okkar.
Nú er komið að ferðalaginu hjá þér og það eru þakklátir afkomendur sem kveðja þig í dag.
Mikið erum við systkinin þakklát fyrir allt sem við lærðum af ykkur pabba, hjálpsemi, dugnað, heiðarleika og vinnusemi og svo mætti lengi telja.Mamma lærði kjólasaum í Vestmannaeyjum og var sístarfandi alla daga. Átti prjónavél og var allt saumað og prjónað á okkur krakkana.
Mamma var mörgum góðum kostum gædd, hafði góða nærveru, gott skap en var líka ákveðin og stóð fast á sínu. Það var alveg sama hvað gekk á, þá voru ekki lætin í henni, því oft var nú “glatt” á hjalla og mikil læti með sjö börn á heimilinu.
Við eigum margar góðar minningar frá æskuárunum okkar og verður aðeins stiklað á stóru hér. Oft var mikill hávaði í okkur og átti mamma til að kalla “viljið þið loka gluggunum svo nágrannarnir heyri ekki í ykkur.”
Miðjubarnið hann Guðni var óþekkastur og fjörugastur af okkur, og það hjálpaði honum ekki að eiga einn eldri bróðir og einn yngri sem stanslaust espuðu hann upp og stríddu honum. Einu sinni var pabbi orðin uppgefin á honum, fór með hann upp í herbergið sitt og þar átti hann að vera í einhvern tíma. Eftir u.þ.b 3 mínútur opnaðist útihurðin og inn kom Guðni. Mamma hrökk í kút og spurði hvernig hann hefði komist út. “Ég stökk bara út um gluggann” svaraði Guðni, en því trúði mamma ekki því hæðin var ca 3,5 metrar. “Þú ert að skrökva” sagði mamma. “Nei, ég skal bara sýna þér það” sagði sá stutti og stökk af stað. Mamma fer á eftir honum og sér hann stökkva niður og þá held ég að mömmuhjartað hafi tekið mörg aukaslög.
Mamma okkar var mikil glæsikona. Hún var alltaf í fallegum fötum og með hálsfesti, eyrnalokka og hringi á flestum fingrum. Við systurnar fjórar fengum ekki þessi gen frá mömmu, en þá sagði hún bara: “Þið eruð allar svo líkar pabba ykkar.”
Við systkinin hlökkuðum alltaf mikið til þegar fór að vora því þá var farið að huga að sumarfríinu. Það var ekki flókið því á hverju ári fórum við austur á Neskaupstað til ömmu og afa og alls frændfólksins. Mamma var ættuð að austan og bjó alla sína tíð á Neskaupstað, þar til hún flutti til Vestmannaeyja.
Elsku mamma okkar, nú ertu komin í faðm pabba sem kvaddi okkur fyrir 18 árum og veit ég að hann hefur tekið vel á móti þér. Síðasta árið þitt var þér erfitt og þráðir þú mikið að komast austur til mömmu þinnar og pabba. Við vitum að þú ert komin heim núna og ert með öllu þínu fólki í sumarlandinu.
Við systkinin þökkum þér alla þína hlýju og elsku okkur til handa. Vertu Guði falin elsku mamma okkar.
Lilja Dóra, Guðmunda, Guðjón, Guðni, Halldór, Sigrún og Jónína Björk Hjörleifsbörn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst