Í gær fór fram vinnustofa í Vestmannaeyjum undir yfirskriftinni: Aðgerðir gegn ofbeldi í Vestmannaeyjum og tóku um 70 fagaðilar þátt.
Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að tilefni vinnustofunnar hafi verið að kynna, efla og útvíkka eldra samstarfsverkefni lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, sýslumannsins í Vestmannaeyjum og Vestmannaeyjabæjar í málum er lúta að velferð og högum barna, með áherslu á vernd barna sem búið hafa verið ofbeldi, en verkefnið hefur verið frumkvöðlaverkefni við þróun svæðisbundins samráðs gegn ofbeldi á landsvísu.
Nýja samstarfsverkefnið; Aðgerðir gegn ofbeldi í Vestmannaeyjum, byggir á hinu eldra samstarfi og er ætlað að þróa svæðisbundið samráð gegn ofbeldi enn frekar og fá fleiri þjónustuveitendur í Vestmannaeyjum til samstarfs, en að verkefninu koma nú einnig Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Íþróttabandalag Vestmannaeyja og ÍBV íþróttafélag en auk þess verður aðkoma fjölskyldu- og fræðslusvið Vestmannaeyjabæjar að hinu nýja verkefni mun meiri.
Markmið verkefnisins er að stofnanir og kerfi ríkis og sveitarfélaga, auk íþróttahreyfingarinnar vinni saman að því að tryggja og þróa grundvöll fyrir afbrotavarnir með sameiginlegum áherslum og markmiðum þróuðum út frá svæðisbundnum aðstæðum auk þess að tryggja og þróa grundvöll fyrir áframhaldandi forvarnarsamstarfi aðila og efla samvinnu við úrlausn mála m.a. samkvæmt farsældarlögum. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum mun stýra verkefninu.
Við lok vinnustofunnar var samstarfsyfirlýsing um svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og öðrum afbrotum í Vestmannaeyjum undirrituð, en undir hana rituðu: Arndís Bára Ingimarsdóttir, settur lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, Kristín Þórðardóttir, settur sýslumaður í Vestmannaeyjum, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, Jóna Björgvinsdóttir f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Ingibjörg Jónsdóttir, f.h. Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, Gunnar Páll Hálfdánsson, formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja og Ellert Scheving, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst