Fyrr í mánuðinum gerði Maskína skoðanakönnun fyrir Eyjafréttir. Könnunin var lögð fyrir íbúa Vestmannaeyja, 18 ára og eldri. Meðal spurninga var spurningin:
Styður þú hugmyndir bæjarstjórnar Vestmannaeyja og ríkisins um byggingu minnisvarða á Eldfelli í tilefni 50 ára gosloka afmælis Heimaeyjargoss?
Líkt og sjá má á súluritinu hér að ofan eru örlítið fleiri andvígir byggingu minnisvarðans, eða 50,7% á móti 49,3% þeirra sem tóku afstöðu.
Ef skoðaður er bakgrunnur niðurstöðunnar má sjá að meirihluti stuðningsmanna H og E listans eru jákvæðir í garð minnisvarðans en stuðningsmenn sjálfstæðismanna eru mjög óánægðir. Þá má sjá að þeir sem yngri eru eru ánægðari en þeir eldri.
Um 78% svarenda vildu fá útlitshugmynd og um 85% vilja sjá kostnaðaráætlun áður en ákvörðun um minnisvarðann er tekin. Um 8% svarenda töldu óþarfi að fá hvorki hugmynd um útlit né kostnaðaráætlun.
Um 23% stuðningsmanna Eyjalistans töldu óþarfi að kynna áætlanir bæjarins og um 13% stuðningsmanna H-listans.
Ólafur Elíasson lýsir listaverkinu svona:
Verkið sameinar margar hugmyndir sem mér eru kærar: mikilvægi þess að gefa sér tíma til að staldra við og hugsa, finna fyrir tilvistinni hér og nú, véfengja eigin sjónarhorn, hugleiða um afstæði tilverunnar og forvitni um sjónarhorn og upplifanir annarra, ennfremur að velta fyrir sér hreyfingu líkamans og hlutverki hans í því að standa andspænis veröldinni og að móta hana.
Hér að neðan má sjá bakgrunn niðurstöðu spurningarinnar um kynningu áður en ákvörðun verður tekin um verkefnið.
Samkvæmt heimildum Eyjafrétta hafa bæjarfulltrúar meirihlutans fullyrt að ekki verði um að ræða afturkræfanleg áhrif vegna uppsetningu minnisvarðans.
Í samtali Eyjafrétta við Pál Magnússon í fyrrasumar kom fram að kostnaður sem sneri að listamanninum gæti numið um 100 milljónum króna en heildarkostnaður verkefnisins myndi skiptast milli ríkisins og Vestmannaeyjabæjar.
Markmið og framkvæmd
Könnun þessi er gerð af Maskínu fyrir Eyjasýn. Könnunin var lögð fyrir íbúa Vestmannaeyja, 18 ára og eldri sem eru með skráð símanúmer annars vegar og fyrir þá sem voru skráðir í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá hins vegar.
Könnunin var lögð fyrir á netinu, meðlimir í Þjóðgátt Maskínu fengu boðspóst og áminningar með tölvupósti og SMS skilaboðum en í Þjóðskrárúrtaki með skráð símanúmer fengu þátttökuboð og áminningar með SMS skilaboðum.
Við úrvinnslu voru svörin vigtuð til samræmis við mannfjöldatölur Hagstofunnar um kyn og aldur, til að svarhópurinn endurspegli sem best lýðfræðilega samsetningu íbúa í Vestmannaeyjum. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun. Könnunin fór fram frá 6. til 11. nóvember 2024 og voru svarendur 306 talsins.
Fleiri niðurstöður
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst