Systurnar Þórunn Día og Eygló Myrra Óskarsdætur láta sig sjaldan vanta á Þjóðhátíð í Eyjum. Þær eiga rætur að rekja til Vestmannaeyja og eru að eigin sögn miklar Eyjakonur í sér og koma reglulega til Eyja að heimsækja ættingja og vini, enda er afi þeirra enginn annar en Svavar Steingrímsson og amma þeirra heitin Eygló Óskarsdóttir. Við fengum að setjast niður með systrunum og forvitnast um undirbúninginn, minningarnar og þá einstöku tilfinningu sem fylgir Þjóðhátíð.
Margar skemmtilegar minningar
Þegar þær rifja upp Þjóðhátíðir liðinna ára koma ýmsar dýrmætar minningar upp. Eygló man sérstaklega eftir einni þjóðhátíðinni þegar þær systur voru yngri og mættu á Þjóðhátíð í blíðskaparveðri sem krakkar. ,,Okkur þótti mikið sport að fá að vera með í sem flestu sem tengdist hátíðinni og á þessum tíma var það algjör sigur að fá að vinna í sjoppunum. Það var mikið að gera í íssjoppunni á þessari Þjóðhátíð því veðrið var svo gott. Raðir mynduðust og brugðið var á það ráð að selja ís úr ískistum,” segir Eygló.
„Við fengum svona stórar írskistur framan á okkur og fengum að labba um og selja ís og okkur fannst það alveg ótrúlega skemmtilegt. Það var þvílík stemningin að fá að vera með,“ segir Eygló og hlær. Þórunn rifjar upp að sem barn hafi hún verið spennt fyrir söngvakeppninni. „Við systur tókum þátt mörg ár í röð, unnum aldrei, en þetta var alltaf jafn gaman! Enn þann dag í dag finnst mér gaman að horfa á keppnina því maður veit hversu mikið krakkarnir eru búnir að leggja á sig og það er eitt og sér sigur að geta komið fram og sungið fyrir framan áhorfendur. Einnig minnast þær sérstaklega á bekkjarbílanna og stemninguna sem fylgdi því að ganga frá Sóleyjargötunni frá ömmu og afa, setjast upp í bekkjabíl og renna niður í dalinn tilbúnar í hátíðarhöldin.
Undirbúningurinn partur af hátíðarhöldunum
Undirbúningurinn fyrir Þjóðhátíð hefst snemma hjá þeim systrum. „Við erum nú þegar byrjaðar að plana,“ segja þær og nefna að það þurfi að huga að mat, drykk og skreytingum. Þórunn segist hafa rætt við Bínu tengdamóður sína á dögunum um hvað ætti að vera í tjaldinu og voru þær sammála um að það væri klárlega sírópsvínarbrauðið klassíska og mömmukökurnar sem þau eru með árlega, en svo gera þær systur líka hrískökur til að hafa í tjaldinu. Þórunn Día er gift eyjamanninum Birni Kristmannssyni og deila þau tjaldi með bróður hans, Guðfinni Kristmannssyni og Aðalheiði Jónsdóttur konu hans Þeir sem taka þátt í okkar tjaldi eru skyldugir að koma með fermingarmynd af sér, þannig að Eygló þarf að mæta með sína mynd þar sem hún ætlar að vera með okkur í tjaldi,“ segir Þórunn og hlær.
Aðspurðar hvort þær fylgi ákveðnum hefðum þegar kemur að Þjóðhátíð þá minnast þær á að þegar þær voru yngri þá voru ákveðnar hefðir á þeim tíma. ,,Fjölskyldan var velkomin í hvíta tjaldið hjá góðum fjölskyldum og vinum og þær rifja upp að það hafi verið hápunktur að fara í súpu til Jónu og Gvendar í Foto á sunnudeginum fyrir brekkusöng, alltaf mikið stuð þar. Þær eru sammála um að það sem stendur upp úr á Þjóðhátíð í dag á þeirra fullorðinsárum snúist fyrst og fremst um samveruna og að ná að hitta ættingja og vini sem þær hitta ekki endilega á hverjum degi. „Maður hittir kjarnann sinn og það að gefur manni ótrúlega mikla orku,“ bæta þær við. ,,Í dag höfum við skapað okkar eigin hefðir, við mætum á setninguna í okkar fínasta pússi og höldum svo setningarkaffi í tjaldinu. Á laugardagskvöldinu erum við með ,,Kakó og stroh“ partý í tjaldinu okkar, þá mæta vinir og vandamenn í tjaldið og hlýja sér með góðum drykk.“ Á fimmtudagskvöldinu fyrir hátíðina skreyta þær svo tjaldið og opna eina kampavínsflösku með. „Við erum auðvitað bara með fjórar fermingarmyndir sem skraut, svo þetta snýst aðallega um að skála“ segir Þórunn og hlær.
Þegar þær eru spurðar hvað gerir Þjóðhátíð einstaka eru þær sammála um að það sé fólkið númer eitt, tvö og þrjú. „Fólkið, eyjan og krafturinn í klettunum,“ bætir Þórunn við. Að lokum langaði okkur að vita hvaða lag væri þeirra uppáhalds þjóðhátíðarlag. Eygló nefnir að hún sé með þrjú lög sem hún haldi mest upp á og það séu „Þúsund hjörtu“, „Lífið er yndislegt“ og „Þar sem hjartað slær“. Þórunn segir að sitt uppáhalds þjóðhátíðarlag sé klárlega ,,Dagar og nætur“ eftir Bryndísi Ólafsdóttur og Eyjólf Kristjánsson. Það er greinilegt að Þjóðhátíð á sérstakan stað í hjarta systranna, þar sem minningar, hefðir og samverustundir fléttast saman og er það nokkuð ljóst að þær munu ekki einungis mæta með fermingarmyndir og hrískökur með í dalinn heldur einnig með gleði, góða orku og stemningu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst