Símamótið fór fram dagana 10.-13. júlí. Símamótið er stærsta stúlknamótið á Íslandi og sendi ÍBV stelpur úr 7., 6. og 5. flokki á mótið. Stelpurnar stóðu sig vel á mótinu og skemmtu sér frábærlega. Við ræddum við þjálfara flokkana, Trausta Hjaltason, Guðnýju Geirsdóttur og Richard Goffe um mótið og gengi stelpnanna.
Þjálfari 5. flokks, Trausti Hjaltason hafði þetta að segja um gengi stelpnanna á mótinu.
,,Stelpurnar okkar í 5. flokki skemmtu sér vel og voru félaginu til sóma á Símamótinu. 27 stelpur eru í 5. flokki og spiluðu í þremur liðum. Stór hluti stelpnanna var að spila á sínu síðasta símamóti. Öll liðin stóðu sig vel og mátti sjá framfarir hjá stelpunum sem hafa æft vel í sumar. Samtals 14 sigrar, sjö töp og þrjú jafntefli í hnífjöfnum leikjum. En fyrst og fremst gleði og lærdómur hjá þessum flottu stelpum. Símamótið er stærsta knattspyrnumót landsins og er haldið á hverju ári í Kópavogi fyrir stelpur 12 ára og yngri.”
6.flokkurinn skemmti sér konunglega á Símamótinu í ár. Við fórum með 24 stelpur í fjórum liðum og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Þær voru félaginu til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Liðin lentu í mis erfiðum riðlum en stelpurnar lögðu sig allar fram og uppskáru eftir því. Gaman að fylgjast með þessum leikmönnum vaxa og dafna í íþróttinni, stöðugt að taka framförum og skilningurinn á leiknum að verða meiri.
7. flokkur var með tvö lið á mótinu, samtals 13 stelpur. Stelpurnar undurbjuggu sig vel fyrir mótið bæði með venjulegum æfingum og líka séræfingum þar sem áherslan var lögð á markaskorun, fögn og leikgleði. Æfingarnar voru mjög gagnlegar og hjálpuðu stelpunum að ná betri árangri.
Stelpurnar spiluðu átta leiki á þremur dögum og fengu hver og ein stelpa svipaðan spiltíma til að hjálpa til við þróun þeirra. Úrslitin voru misjöfn, mörg mörk skoruð og líka fengin á sig, en aðalmarkmiðin náðust, það var að hafa gaman, læra að spila betur saman og þróa félagsfærni og ábyrgð. Foreldrar fengu líka að eyða mikilvægum tíma saman sem helstu stuðningsmenn. Sumar stelpurnar skoruðu sitt fyrsta mark, aðrar vörðu sitt fyrsta skot, unnu eða töpuðu sínum fyrstu leikjum en fyrst og fremst sköpuðu þær frábærar minningar og fengu dýrmæta reynslu á þessu flotta móti.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst