Sjómenn og SFS semja
Heidrun_Valmundur_ads
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS og Valmundur Valmundsson formaður SSÍ handsala hér samninginn.

Skrifað var undir nýjan kjarasamning á milli Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í dag.

Binditími samningsins er styttur úr 10 árum í 5 ár, en hægt verður að segja upp samningi með kosningu eftir 5 ár. Uppsagnarfrestur hans er 12 mánuðir. Ef samningi er ekki sagt upp eftir 5 ár er næst hægt að segja upp eftir 7 ár. Þá er uppsagnarfrestur 6 mánuðir.

Ef samningi er ekki sagt upp gildir hann í 10 ár. Að sögn Kolbeins Agnarssonar formanns Jötuns – sjómannafélags, er þetta mikilvæg breyting frá fyrri samningi sem var bundinn í 10 ár.

Þá hefur grein 1.39 verið lagfærð. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa nefnd sem hefur það hlutverk. Greinin hefur verið í kjarasamningi sjómanna frá árinu 2004, en hingað til hefur vantað ferli til að leysa úr ágreiningi.

Ísun ekki á hendi skipverja

Ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis verður ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Sé afli settur í gáma til sölu erlendis skal
útgerðarmaður semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi.

Í neyðartilvikum, ef löndunargengi getur ekki tekið verkið að sér, geta útgerð og skipverjar samið um að skipverjarnir ísi yfir körin sem fara í gámana gegn greiðslu m.v. yfirvinnutaxta skv. kaupskrá. Þetta atriði um yfirísun er viðbót frá fyrri samningi.

Hækkun kauptryggingar og kaupliða

Kauptrygging og kaupliðir hækka í samræmi við laun á almennum vinnumarkaði frá því að síðasti samningur rann út, 1. desember 2019.

Þá er deilitalan í kauptrygginguna lækkuð úr 173,3 í 156,0 til að finna tímakaup – sem þýðir að vinnuskylda sjómanna er færð úr 40 klst. á viku í 36 klst. á viku þegar þeir sinna vinnu í landi á móti kauptryggingu.

Auk þess er í samningnum samið um að kauptrygging og aðrir kaupliðir hjá sjómönnum taki sömu hækkunum og laun landverkafólks á samningstímanum.

Eingreiðsla við undirritun samnings

Að sögn Kolbeins fá félagsmenn 400.000 kr. eingreiðslu frá útgerðarfélögum verði samningur samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi og bein kjarabót fyrir sjómenn.

Ýmis önnur ákvæði

Þá má nefna að framlag í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%. Þá nefnir Kolbeinn að í nýju samningunum verði aukið gagnsæi í uppgjöri til sjómanna.

Einnig verða stærðarmörk skipa færð úr brúttórúmlesta viðmiði yfir í skráningarlengd í metrum. Samhliða þessu er flokkum í skiptatöflum fyrir hverja veiðigrein fækkað og samningarnir þar með einfaldaðir.

Þá skal útgerð greiða fastráðnum skipverjum, og skipverjum sem ráðnir eru í reglulegar afleysingar, desemberuppbót ár hvert, fyrst þann 15. desember 2028. Full uppbót miðast við 160 lögskráningardaga eða fleiri. Ef lögskráningardagar eru færri skerðast greiðslur
hlutfallslega.

Nýi samn­ing­ur­inn verður kynnt­ur fé­lags­mönn­um á næst­unni, en ra­f­ræn at­kvæðagreiðsla um hann hefst á há­degi 12. fe­brú­ar og lýk­ur föstu­dag­inn 16. fe­brú­ar klukk­an 15:00.

Kolbeinn_IMG_3086-001
Kolbeinn Agnarsson, formaður Jötuns.

Nýjustu fréttir

Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag
„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk
Guðbrandur Einarsson segir af sér þingmennsku
Mikill áhugi á Eyjagöngum
Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.