„Tryggingfélagið Sjóvá rekur 13 útibú um allt land, auk höfuðstöðvanna sem eru í Reykjavík. Við leggjum mikinn metnað í að sinna þjónustuhlutverki okkar með framúrskarandi hætti, þannig að viðskiptavinir okkar fái góða vernd í samræmi við þarfir þeirra, góða ráðgjöf byggða á þekkingu og snögga og örugga þjónustu ef þeir lenda í tjóni,“ segir Jóhann Þórsson, markaðsstjóri í samtali við Eyjafréttir. Og félagið stendur á traustum grunni með meira en aldarsögu að baki. „Starfsemi Sjóvá á sér yfir 100 ára sögu en upphafið er rakið til þess þegar Sjóvátryggingafélag Íslands var stofnað árið 1918 en með stofnun þess var stigið fyrsta skrefið hér á landi til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Þó að margt hafi að sjálfsögðu breyst frá þessum upphafsárum má segja að kjarni starfseminnar enn sá sami. Við erum stolt af útibúi okkar í Vestmannaeyjum þar sem Sigga Stína og Erna fara með stjórnina. Þær hafa starfað hjá okkur í áratugi og búa að reynslu sem nýtist vel í samskiptum við viðskiptavini. Á það jafnt við fyrirtæki og einstaklinga sem eru í viðskiptum við okkur í Vestmannaeyjum,“ bætir Jóhann við.
Efst á ánægjuvoginni
Hann segir hlutverk Sjóvá vera að stuðla að betra í samfélagi með því að vera bakhjarl einstaklinga og fyrirtækja þegar á reynir, tryggja verðmæti þeirra og vinna með þeim að því að koma í veg fyrir slys og tjón. „Við sinnum þessu hlutverki með umhyggju að leiðarljósi og byggjum á þeirri sérþekkingu sem við búum yfir á sviði trygginga og forvarna. Við leggjum áherslu á að vera í góðu sambandi við viðskiptavini okkar, einstaklinga jafnt sem fyrirtæki, og fylgjumst vel með breytingum á þörfum þeirra og breytingum í samfélaginu almennt, til að geta stöðugt mætt þeim.“ Segir Jóhann að með öflugum mannauði sem hafi metnað til að veita framúrskarandi þjónustu og skýrri sýn hafi Sjóvá tekist að auka traust viðskiptavina og ánægju til muna á síðustu árum. „Sjóvá hefur verið efst í Íslensku ánægjuvoginni síðustu 8 árin, enda leggur félagið mikla áherslu á að viðskiptavinir séu ánægðir með þjónustuna, sama hvort það er við sölu, ráðgjöf eða þjónustu vegna tjóna, stórra sem smárra,“ sagði Jóhann að endingu.
Í Vestmannaeyjum er maður alltaf í vinnunni
„Já, það er rétt,“ segir Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir, ráðgjafi hjá Sjóvá í Vestmannaeyjum þegar henni er bent á að nafn hennar er ansi kröftugt. „Það er góð saga á bak við það. Ég fæddist í húsi sem heitir Bjarg og þar bjuggu Sigurður og Kristín. Kristín var ljósmóðirin og maðurinn hennar Sigurður. Ég var borin í rúmið til hans þegar ég var fædd. Þannig kemur það til, Siggi á Bjargi. Er ég skírð í höfuðið á þeim,“ segir Sigga Stína eins og fólk í Eyjum þekkir hana best.
Hún er Vestur- Skaftfellingur, fædd og uppalin í Vík í Mýrdal og eiginmaðurinn, Gunnar Kristján Oddsteinsson vélstjóri er úr Skaftártungunum. „Við komum til Eyja haustið 1990. Ég ætlaði að vera í ár en nú eru þau að verða 35, sem segir manni hvað það er frábært að búa hér. Síðasta haust var ég búin að vinna hjá Sjóvá í 20 ár,“ segir hún aðspurð.
Fátt gleður hana meira í vinnunni en jákvæð samskipti við þeirra góðu viðskiptavini hér á paradísareyjunni, sem og á Suðurlandinu. „Við tilheyrum Suðurlandinu öllu. Mitt aðalstarf er að vinna fyrir viðskiptavini okkar, í stórum málum og smáum, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga.
Í Vestmannaeyjum er maður alltaf í vinnunni. Fólk kemur og talar við mig úti í búð, í Herjólfi og hvar sem er. Segir; – ég var að lenda í tjóni hvað á ég að gera. Við stöndum kannski í mjólkurkælinum og ég aðstoða fólk við að fara inná heimsíðuna hjá okkur og tilkynnum tjónið þar saman. Allir glaðir enda er það okkur hjartansmál að veita okkar viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu hvar sem er.
Ein stór fjölskylda
Fólkið gengur að manni vísum hvar sem er,“ segir hún og hlær. „En er líka gaman, annars hefði ég ekki verið í þessu í öll þessi ár,“ segir Sigga Stína sem minnir á að Sjóvá hefur nú aðsetur á Pósthúsinu.
„Ég kem frá Reykjavík, fjölskyldukona og búsett með Eyjamanni,“ segir Erna Karen hjá Sjóvá í Vestmannaeyjum. Maður hennar er Jón Óskar Þórhallsson, útibússtjóri Landsbankans í Vestmannaeyjum. Eiga þau fjóra stráka. „Við fluttum til Eyja fyrir átta árum. Strákarnir okkar fjórir eru á aldrinum 14 til 30 ára og bara sá yngsti eftir heima. Hinir í skóla og vinnu í Reykjavík,“ segir Erna Karen sem leist strax vel á að flytja til Vestmannaeyja. „Mér leist rosalega vel á það. Var tilbúin að fara í rólegra umhverfi og meira nærumhverfi en er í borginni. Var rétti tímapunkturinn og hér er ég enn. Ég var búin að vera hér í þrjá mánuði þegar ég fann að hér vil ég vera.“ Erna Karen byrjaði hjá Sjóvá í Reykjavík árið 2006 og var viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. „Þannig að reynslan var nokkur þegar ég byrjaði hér í Eyjum. Mér fannst þetta skrýtið fyrst en svo var það bara notalegt. Mikil nánd og svo þekkir maður viðskiptavinina sem maður gerir ekki í Reykjavík. Það er stór breyting en alveg dásamleg. Eins og ein stór fjölskylda, sama við hvern maður talar við, í vinnunni eða annarstaðar. Það f innst mér svo dýrmætt. Við erum líka ofboðslega ánægð með okkar viðskiptavini. Þakklát að þeir skuli leita til okkar þannig að við erum sátt,“ segir Erna Karen.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst