„Við vitum að þetta sumar á eftir að verða tilfinningaþrungið. Við erum staðráðin í að kveðja með reisn og gera þetta að eftirminnilegu lokasumri. Við opnuðum Slippinn 21. maí sl. og lokakvöldið er 13. september,“ segir Gísli Matthías Auðunsson, listakokkur og hugsjónamaður í viðtali í maí blaði Eyjafrétta. Og nú er komið að því, Slippnum sem ásamt m.a. Einsa Kalda og Gott hafa komið Vestmannaeyjum á kortið með veitingastaði í fremstu röð verður lokað annað kvöld. Ekkert verður til sparað á lokakvöldinu.
„Þessi sumarvertíð hefur verið full af alls konar tilfinningum, svo margir hafa komið til okkar og kvatt – ég er svo þakklátur. Ég fæ tár í augun bara við að skrifa þetta,“ segir Gísli Matthías á Fésbókarsíðu sinni. „Að vinna á Slippnum er erfitt, kaótískt og fullt af áskorunum á hverjum einasta degi. Ég er svo þakklátur fyrir allt þetta frábæra fólk sem stendur vaktina með elju og alúð og lætur okkur sannarlega líta vel út.
Við viljum gjarnan deila með ykkur því sem við höfum verið að skapa síðustu 14 sumrin. Á lokakvöldinu munum við fagna með lengri matseðli, drykkjapörun og frábærum tónlistarmönnum sem sjá til þess að stemningin haldist löngu eftir að þjónustu lýkur,“ segir Gísli Matthías um þessi tímamót í sögu hans, fjölskyldunnar og Vestmannaeyja.
Heimsfrægur
Slippurinn hefur frá upphafi verið fjölskyldufyrirtæki. Var stofnaður sumarið 2012 og er frægur um allan heim. Þau gáfu út bók sem kom út í 76 löndum um Slippinn og Vestmannaeyjar. Veitingastaðurinn hefur einnig fengið umfjöllun í mörgum af stærstu fjölmiðlum heims á borð við The New York Times, Wall Street Journal, BBC, Vogue og svo mætti lengi telja. Hefur einnig komið fyrir í ótal sjónvarpsþáttum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst