Það er algjör risaleikur í kvöld á EM karla í handbolta þegar Ísland og Danmörk eigast við í undanúrslitaleik mótsins kl. 19:30 í Herning í Danmörku. Sæti í úrslitaleik mótsins er í húfi en í hinum undanúrslitaleiknum leika Þýskaland og Króatía.
Við á Eyjafréttum fengum nokkra af helstu handboltasérfræðingunum úr Eyjum til að spá í spilin fyrir þennan risastóra leik. Hvaða lið, Ísland eða Danmörk, fer í úrslitaleik Evrópumótsins 2026?
Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins
Ísland 43 – 42 Danmörk
Verkefnið er risavaxið. Við erum að mæta besta liði heims undanfarin ár og á þeirra heimavelli. Frábært lið sem spilar flestum stundum stórbrotinn handbolta en vinnur leiki þó það sé ekki á deginum sínum.
Okkar strákar þurfa allir að eiga rúmlega sinn besta leik og morgun bjartsýnin segir mér það sé akkurat það sem muni gerist. Við vinnum þennan leik í framlengingu 43-42.
Elliði gleymir sér í stemningunni, brosir hringinn frá fyrsta flauti og kveiki í okkar mönnum. Verður maður leiksins – aftur!
Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari meistaraflokks karla ÍBV í handbolta
Danmörk 34 – 28 Ísland
Ég ætla að vera svartsýnn fyrir okkar hönd og spái Danmörku sigri. Danmörk er líklega sterkasta landslið heims um þessar mundir, þeir eru með breiðan hóp, hafa sýnt mikinn stöðugleika og eru alveg rosalega hraðir í hraðaupphlaupum og svokallaðri seinni bylgju. Þeir eru með einn besta markmann í heimi sem hefur verið að leika frábærlega á þessu móti og ef hann dettur í stuð verða þeir óviðráðanlegir með sínum hraða leik. Þó svo að Ísland geti einnig boðið upp á hraðan leik þá held ég það gæti orðið hættulegur leikur að ætla sér að keyra hraðann upp.
Danir hafa líka sýnt það á síðustu árum að í stórleikjum þar sem þeir ná stjórn snemma hafa þeir oft tilhneigingu til að keyra muninn upp í 5–7 mörk, en vonandi gerist það ekki. Svo má ekki gleyma því að Danir eru á heimavelli, í stórri höll og á föstudagskvöldi þá gæti stemningin orðið rosaleg.
Ef Ísland ætli sér að eiga séns þá þarf mjög agaðan leik, jafnvel að leika langar sóknir, halda vel í boltann og vona að markmenn Dana eigi slakan leik.
Birna Berg Haraldsdóttir, leikmaður ÍBV í handbolta
Danmörk 33 – 29 Ísland
Ég held því miður að þessi leikur verði brekka. Danir eru á heimavelli og eru handhafar 99% aðgöngumiðana á þennan leik. Þeim var spáð sigri fyrir mót og eg held að það sé nokkuð líklegt. Danir hafa verið stabílli i gegnum mótið og þó þeir hafi tapað einum leik, þá skipti hann engu máli þegar upp var staðið þar sem þeir unnu sinn milliriðil. Íslenska liðið hefur sýnt flotta kafla inná milli en það vantar meira stöðugleika.
Ég skal þó glöð éta sokkinn minn á föstudagskvöldið ef ég hef rangt fyrir mér og það er svo sannarlega það sem ég vona.
Ingibjörg Jónsdóttir, fyrrum leikmaður ÍBV og íslenska landsliðsins
Danmörk 34 – 30 Ísland
Til að við vinnum leikinn á morgun þurfa allir okkar leikmenn að eiga 100% frammistöðu og aðeins rúmlega það. Mér finnst Danir vera með yfirburða lið á mótinu en það getur allt gerst í handbolta. Auðvitað vona ég að við vinnum en tel að Danir vinni leikinn 34-30 en við munum svo vinna leikinn um þriðja sætið.
Sandra Erlingsdóttir, leikmaður ÍBV og íslenska landsliðsins
Ísland 34-31 Danmörk
Verður mjög hraður leikur með mikilli keyrslu! það lið sem verður með betri markvörslu og vörn vinnur leikinn.
Unnur Björg Sigmarsdóttir, fyrrum þjálfari ÍBV
Ísland 34 – Danmörk 33
Eftir að hafa verið að koma frá Svíþjóð í dag og fundið orkuna og samheldnina sem er yfir liðinu, ætla ég að spá Íslandi sigur eftir framlengingu 33-34. Ég hef farið á 15 stórmót og það er eitthvað í loftinu núna. Þetta með áhorfendur er auðvitað hundleiðinlegt, en handboltinn er bara þannig að allt getur gerst.
Ísak Rafnsson, leikmaður meistaraflokks ÍBV
Ísland 35 – 34 Danmörk
Þetta verður rosalegur leikur sem mun reyna mikið á taugarnar á okkur áhorfendunum. Danir munu leiða þetta nánast allan leikinn en við munum hanga í þeim og taka þetta með flautumarki frá Elliða. Lokatölur 35-34.