Karlalið ÍBV tapaði naumlega fyrir KA í 18. umferð Bestu deildar karla í kvöld er leikið var á Greifavellinum á Akureyri. Heimamenn byrjuðu leikinn betur og fengu dauðafæri strax á upphafsmínútum leiksins. KA héldu áfram að herja að marki Eyjamanna en Hjörvar Daði Arnarsson átti frábæran leik og kom í veg fyrir að KA menn kæmust yfir. Oliver Heiðarsson fékk fyrsta tækifæri ÍBV en tókst ekki að koma boltanum fram hjá Steinþóri Má Auðunssyni. Staðan 0-0 í hálfleik.
Bæði lið fengu tækifæri í seinni hálfleik til að taka forystuna en það var ekki fyrr en á 86. mínútu leiksins að heimamenn náðu að setja boltann í markið. Dagur Ingi Valsson náði þá að pota boltanum inn eftir mikinn darraðadans inn á teig Eyjamanna. Svekkjandi tap hjá Eyjamönnum sem misstu KA upp fyrir sig í töflunni. ÍBV er nú í 8. sæti með 21 stig á meðan KA er í 7. sæti með 22 stig.
Eyjamenn taka á móti Val sunnudaginn 17. ágúst kl. 14:00 á Hásteinsvelli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst