Þann 5. júlí síðastliðinn syntu þeir félagarnir Pétur Eyjólfsson og Héðinn Karl Magnússon frá Elliðaey yfir í Heimaey. Sundið var synt í minningu Margrétar Þorsteinsdóttur og jafnframt til styrktar góðgerðarfélaginu Ljónshjarta. Alls söfnuðust 2,3 milljónir.
Ljónshjarta kt. 6012130950 reikn. 0536-14-400960 ef einhverjir fleiri vilja styrkja Ljónshjarta til að styðja við börn sem hafa misst foreldri.
Við fengum að heyra aðeins í þeim félögum um sundið og undirbúninginn sem því fylgdi.
Fjölskylda: Við vorum nú eins og hjón á meðan á undirbúningnum stóð, rifumst og föðmuðumst til skiptis. Héðinn er hins vegar giftur Donnu Ýr og á með henni 4 börn – Ísabellu Ýr, Ísak Huginn, Natalíu Lóu og Alexöndru Árný. Pétur á soninn Eyjólf sem er okkar helsti stuðningsmaður. Síðan deilum sameiginlegu forræði yfir hrefnu sem synti með okkur fyrsta kílómeterinn.
Mottó? Hvalir og selir éta ekki miðaldra karla með bumbu. Þetta hefur Gunni Ella P margsannað. Annars bara að hafa gaman af þessu, það var ekki alltaf auðvelt að fara í sjóinn en það var alltaf gaman þegar út í var komið.
Síðasta hámhorfið? Héðinn horfði á David Attenborough tala um sæljón en Pétur horfði á Baywatch til að stilla sig inn í sundformið.
Uppáhalds hlaðvarp? Það er alltaf gaman að hlusta á „Stjána“. Þótt þáttarstjórnandinn þar sé svikari og hundleiðinlegur, þá er Stjáni sjálfur frábær og margar skemmtilegar sögur hjá honum. Aðaláhugamál: Að gera hluti sem enginn bað okkur um að gera – eins og að synda milli eyja í Norður-Atlantshafi.
Eitthvað sem þið gerir á hverjum degi sem þið gætuð ekki verið án? Kaffi.
Hvað óttist þið mest? Fyrir sundið voru það háhyrningar, en nú óttumst við ekkert.
Hvað er velgengni fyrir ykkur? Í þessu samhengi þá var það bara að komast í land brosandi og geta drukkið verðlaunabjórinn óskjálfandi.
Hvað myndið þið segja að hafi verið mesta áskorunin við að synda frá Elliðaey og í land? Að reyna að líta svalir út í sundgalla, með sundgleraugu upp á enni og vaselín á kinnunum.
Hvernig undirbjuggðuð þið ykkur fyrir sundið? Við syntum í sjónum eins oft og við gátum. Það var oft erfitt að finna tíma, og ekki alltaf veður til sjósunds. Það reyndist líka ótrúlega auðvelt að sannfæra hvorn annan um að fresta æfingum, en þá var alltaf hægt að fara í sundlaugina.
Funduð þið fyrir stuðningi fólks? Já! Ótrúlegum stuðningi frá fjölskyldu, samstarfsfélögum og samfélaginu öllu hér í eyjum. Það var ótrúleg tilfinning að koma syndandi inn höfnina og sjá allt fólkið sem tók á móti okkur. Að sjá Palla á Tanganum og Írisi bæjarstjóra með skítkaldan öl á bryggjunni var besta tilfinning í heimi!
Eitthvað að lokum? Kærar þakkir allir fyrir stuðninginn. Fyrir Ljónshjarta söfnuðust hærri upphæðir en við þorðum að vona. Og við vitum að þar á bæ á þetta eftir að nýtast vel. Strákarnir sem sigldu með okkur á kæjökum og bátum og sáu til þess að við héldum stefnu og fengjum næringu.
Fylgist með næsta sumar þegar Pétur ætlar að synda fyrstur manna frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst