Ísfisktogarinn Bergey VE hefur fiskað vel að undanförnu. Farnar hafa verið þrjár veiðiferðir á skömmum tíma og að þeim loknum hefur ávallt verið landað fullfermi í heimahöfn í Vestmannaeyjum. Skipstjóri í tveimur fyrstu ferðunum var Ragnar Waage Pálmason og var hann ánægður með aflabrögðin.
Í samtali við vef Síldarvinnslunnar segir hann að það hafi verið mjög góð veiði í fyrri túrnum og enn betri í þeim síðari. „Það var veitt út af Garðskaga og aflinn var mest ýsa. Við vorum í rúma þrjátíu tíma á miðunum í hvorum túr. Eftir fyrri túrinn var landað á sunnudag fyrir rúmri viku og síðan aftur á þriðjudag. Þetta voru hörkutúrar,” sagði Ragnar Waage.
Bergey landaði að afloknum þriðja túrnum í gær og var Jón Valgeirsson þá skipstjóri . Jón var ekki síður sæll með aflabrögðin en Ragnar. „Við byrjuðum út af Garðskaga og þar var fínasta veiði þó ekki væri um að ræða jafn mikið blindmok og í túrunum tveimur á undan. Þarna fékkst ýsa og dálítil þykkvalúra með. Ýsan liggur þarna í síldarhrognum og það virðist vera nóg af henni. Við enduðum túrinn á því að bruna á Víkina og þar var fyllt með þorski,” sagði Jón.
Nú er komið þjóðhátíðarstopp hjá Bergey og mun áhöfnin örugglega skemmta sér vel um verslunarmannahelgina.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst