Fyrr í mánuðinum voru opnuð tilboð í jarðvinnu og lagnir við endunýjun Hásteinsvallar. Fram kemur í fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja að tvö tilboð hafi borist í verkið, en bjóða þurfti verkið út aftur vegna þess að eina tilboðið sem barst áður þótti of hátt.
Tilboðin sem nú bárust voru annars vegar frá Þjótanda ehf. og hlóðaði það upp á 116.030.706 kr og hins vegar frá Fagurverk ehf. upp á 129.718.800 kr. Ekki kemur fram í fundargerðinni upp á hvað kostnaðaráætlun bæjarins hljóðaði.
Sigurður Smári Benonýsson byggingarfulltrúi kynnti á fundinum niðurstöður tilboða og fór yfir tímalínu framkvæmdarinnar og minnisblað umhverfis- og framkvæmdasviðs vegna hitalagna undir völlinn.
Tímalína framkvæmda er eftirfarandi:
Jarðvinna og lagnir fyrir vökvun 2. janúar til 1. maí.
Lagning gervigras frá 1. apríl til 1. maí er háð veðri og afhendingu. Tekur um 4 vikur að leggja gervigrasið.
Undirstöður fyrir flóðlýsingu 1. mars til 1. maí.
Jarðvinna og uppsetning á tæknirými frá 2. janúar til 1. maí.
Verklok á velli 1. maí 2025, Hásteinsvöllur tilbúinn til notkunar.
Uppsetning á flóðlýsingu og frágangur janúar til maí 2026.
Uppsteypa á tæknirými verður boðin út í desember 2025.
Gervigrasmotta og útlagning verður boðin út í byrjun janúar.
Þá segir að heildarkostnaður framkvæmdarinnar sé 280 m.kr. á verðlagi þessa árs.
Einnig var farið yfir minnisblað sem unnið var vegna hitalagna undir Hásteinsvöll og er áætlaður kostnaður við hitalagnir og tengingu við kerfi HS veitna 85 milljónir, sjá sundurliðun í meðfylgjandi minnisblaði. Rekstrarkostnaður við að keyra kerfið í 4 mánuði er um 60 m.kr. á ári skv. minnisblaði HS.
Framkvæmdakostnaður við hitalagnir og tengingu við varmadælu er áætlaður 265 milljónir. Rekstrarkostnaður við að keyra kerfið í 4 mánuði er um 30 m.kr. á ári. Bæjarstjórn tók ákvörun við samþykkt fjárhagsáætlunar að leggja ekki hitalagnir undir Hásteinsvöll vegna kostnaðar við rekstur þeirra. Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun á fundi þann 11. desember sl..
Erlingur Guðbjörnsson, formaður ráðsins lagði til að framkvæmdanefnd yrði stofnuð til að fylgja eftir framkvæmdinni og í nefndinni verði Erlingur Guðbjörnsson formaður, Sæunn Magnúsdóttir varaformaður og Brynjar Ólafsson framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs.
Í niðurstöðu segir að ráðið samþykki að ganga til samninga við Þjótanda ehf. á grundvelli tilboðs og felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs framgang málsins. Ráðið samþykkti einng að skipa framkvæmdanefnd fyrir hönd ráðsins. Nefndin mun kalla til sín þá aðila sem að framkvæmdinni koma eftir þörfum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst