Allt stefnir í metfjölda hvítra tjalda á Þjóðhátíð í ár. Að sögn Ellerts Scheving Pálssonar framkvæmdastjóra ÍBV-íþróttafélags hefur aldrei verið eins mikil aðsókn í lóðir. „Það bætist í á hverju ári.” segir hann í samtali við Eyjafréttir/Eyjar.net.
Aðspurður um hvort ekki sé jákvætt að ásókn í hvít tjöld sé að aukast svarar Ellert að sjálfsögðu sé það jákvætt. „Það er greinilegt að hátíðin er alltaf að stækka og fleirum langar að vera með hvít tjöld. Fyrir hátíðina í ár urðum við að finna auka 150 metra á svæðinu. Það er hægara sagt en gert. Göturnar verða lengri en vanalega og það verður þrengra um alla, það er alveg á hreinu. Ég vona að engum bregði hversu þröngt verður en einhver sagði að þröngt mættu sáttir sitja.”
Þarf að grípa til einhverra aðgerða á svæðinu
Hvað er til ráða í framtíðinni til að fjölga stæðum fyrir hvít tjöld?
Það er góð spurning. Við munum setjast yfir þetta að lokinni hátíð og fara yfir þá stöðu sem er komin upp. Auðvitað viljum við ekki lóðir séu uppseldar en þá þarf að grípa til einhverra aðgerða á svæðinu. Það hafa ýmsar hugmyndir komið upp en svona lagað er ekki ákveðið eingöngu af félaginu. Við þurfum að setjast niður með bæjaryfirvöldum og fara yfir þetta, segir Ellert Scheving Pálsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst