 
											Vinnslustöðin hefur tekið í notkun nýja, háþróaða HDF hreinsistöð sem tryggir betri nýtingu hráefna og dregur úr umhverfisáhrifum. Á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar segir að verkefnið sé unnið í samstarfi við íslenska fyrirtækið Iðnver og þýska tæknifyrirtækið Huber Technology. Með nýju kerfi er hægt að endurheimta fitu og prótein úr fráveitu sem áður fóru til spillis og skila þeim aftur inn í framleiðsluferlið. Þar er rætt við þá Pétur Blöndal, eiganda Iðnver og Willum Andersen, tæknilegan rekstrarstjóra VSV.
Aðspurður segir Pétur Blöndal, eigandi Iðnver, að HDF hreinsibúnaðurinn sé háþróuð flotunartækni sem aðskilur fitu, prótein og önnur föst efni úr fráveitunni áður en hún er leidd út í sjó. „Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarferla eins og hjá VSV, þar sem mikið er um næringarríkt frárennsli frá fiskvinnslu og fiskimjölsframleiðslu,“ segir hann.
Kerfið sem hannað var sérstaklega fyrir VSV er mjög afkastamikið og hentar vel fyrir umfang starfseminnar. „Það er búið tveimur tromlusíum sem fjarlægja gróf föst efni áður en flotun fer fram, sem tryggir stöðugan og skilvirkan rekstur,“ útskýrir Pétur. Með HDF kerfinu sé hægt að endurheimta verðmæt efni – fitu og prótein – sem áður fóru í sjóinn, og nýta þau aftur í framleiðslunni.
Helstu áskoranir við uppsetningu nýju stöðvarinnar tengdust stækkun frá 140 rúmmetra kerfi á klukkustund í 400 rúmmetra kerfi. „Það krafðist nákvæmrar hönnunar, samhæfingar við núverandi fráveitukerfi og aðlögunar að vinnsluhraða VSV,“ segir Pétur.
Hann bætir við að markmiðið hafi verið að tryggja stöðugan rekstur og hámarksnýtingu í umhverfi þar sem magn og samsetning frárennslis getur verið breytilegt.
Samstarfið við VSV hafi, að sögn Péturs, verið mjög gott og faglegt frá upphafi. „Þar ríkir skýr framtíðarsýn um sjálfbærni og nýtingu hráefna til fulls,“ segir hann. „Huber Technology í Þýskalandi hefur verið traustur tækniaðili með mikla reynslu á þessu sviði og hefur aðlagað lausnina að íslenskum aðstæðum í nánu samstarfi við okkur hjá Iðnver.“
Pétur segir að framtíðin í hreinsitækni snúist ekki lengur aðeins um að fjarlægja úrgang, heldur um að endurheimta auðlindir. „Við sjáum greinilega að áhersla á hringrásarhagkerfi og sjálfbærni í matvæla- og sjávarútvegi er orðin meginstefna. Hreinsitækni mun þróast í þá átt að efni séu endurheimt og nýtt aftur í framleiðslu,“ segir hann.
Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar segir að hvatinn að verkefninu hafi verið bæði hagnýtur og brýnn. „Við vorum ekki lengur að anna þörfinni og vorum að missa frá okkur mikið af óhreinsuðu efni og þar með verðmæt hráefni,“ segir hann. „Gamla hreinsistöðin var orðin mjög úr sér gengin og staðsett inni í miðju húsi, sem gerði reksturinn erfiðan.“
Willum segir að nýja hreinsistöðin falli afar vel að stefnu VSV í sjálfbærni og umhverfismálum. „Við höfum það að markmiði að nýta okkar hráefni sem best með sem minnstum áhrifum á umhverfið. Nýja hreinsistöðin er stórt skref í þá átt,“ segir hann.
Helstu umbæturnar felist í því að fyrirtækið ráði nú við allt affall frá vinnslunni án þess að missa hráefni út í sjó. „Við verðum ekki á tampi við að ráða við affallið og erum ekki að missa það á yfirfall eða út fyrir Eiði,“ segir Willum. Prótein og fita sem unnin eru úr frávatninu fara í gegnum fiskimjölsvinnsluna. „Þannig náum við bæði mjöli og lýsi úr efni sem áður fór til spillis,“ útskýrir hann.
Framtíðarsýnin sé þó enn víðari. „Okkar draumur er að geta rafvætt fiskimjölsbræðsluna,“ segir Willum. „Það hefur þó ekki gengið eftir vegna raforkuverðs og afhendingar. Við vorum komin í útboðsferli með tvo 29 metra báta sem áttu að verða eins umhverfisvænir og hægt væri, en hækkun veiðigjalda stöðvaði það. Því miður standa stjórnvöld að einhverju leyti í vegi fyrir fyrirtækjum sem vilja fjárfesta í grænni framtíð.“
Að lokum segir Willum að samstarfið við Iðnver og Huber hafi verið til fyrirmyndar. „Þegar kom að vali á búnaði fékk maður strax góða tilfinningu fyrir þessum aðilum,“ segir hann. „Þeir komu að borðinu með það markmið að bera ábyrgð á virkni búnaðarins og tryggja að hann uppfyllti allar kröfur. Samstarfið við þá hefur gengið mjög vel og skilað frábærum árangri.“





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst