Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir vegna veðurs á Suðurlandi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendinu. Er þetta önnur viðvörunin sem gefin er út um helgina á Suðurlandi, en þar tekur viðvörunin gildi á morgun, sunnudag kl. 18:00 – mánudagsmorguns kl. 06:00.
Í viðvörunarorðum segir: Austan 15-20 m/s syðst á svæðinu, þ.e. undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum og þar má búast við snörpum vindhviðum. Hægari vindur annars staðar á svæðinu. Tjöld geta fokið og fólk er hvatt til að huga að lausamunum. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Það er ennþá hvöss austanátt syðst á landinu þegar þetta er skrifað og fór vindur hæst í 24 m/s á Stórhöfða. Vindur gengur smám saman niður og verður orðið skaplegra í kvöld enda lægðin að fjarlægjast okkur. Það var víða ágætisveður vestan- og norðanlands þar sem var fremur hlýtt og jafnvel bjart, en hitinn fór hæst í 20.4 stig í Húsafelli.
Önnur djúp lægð er á leiðinni til okkar á morgun með tilheyrandi leiðindaveðri um allt land. Seinnipartinn á morgun fer að hvessa, einkum syðst á landinu með austan og norðaustan hvassviðri eða stormi. Talsverð eða mikil rigning fylgir lægðinni á Suðausturlandi og Austfjörðum og má búast við miklu vatnsveðri annað kvöld og allan mánudaginn (frídag verslunarmanna). Mikilvægt er fyrir ferðafólk að fylgjast vel með veðurspám og -viðvörunum.
Það lægir sunnan- og austanlands á mánudag, en að sama skapi gengur í norðaustan hvassviðri norðvestantil sem getur reynst varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Spá gerð: 03.08.2024 17:10. Gildir til: 04.08.2024 00:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst