Sigurgeir B. Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að félagið skoði nú samstarf við önnur félög til að draga úr áhrifum tvöföldunar veiðigjalda. Hann segir að staðan í sjávarútvegi sé almennt mjög erfið og að nýja skattlagningin bitni sérstaklega á fyrirtækjum á landsbyggðinni.
„Já, við höfum gert það,“ segir Binni í samtali við Eyjafréttir aðspurður um samstarf við aðra í sama geira. „Eins og ég sagði í grein minni á Vísi (Lokun Leo Seafood afleiðing tvöföldunar veiðigjalda) þá munum við horfa til samvinnu eða samstarfs við önnur fyrirtæki, bæði innanlands og erlendis til að minnka tjón félagsins af tvöföldun veiðigjalda, sem nema um 850 milljónum króna.“
Binni bendir á að veiðigjöldin taki ekki gildi fyrr en á næsta ári. „Við verðum að nýta tímann fram að áramótum til að undirbúa álagninguna og finna fleiri leiðir til sparnaðar en að loka Leo Seafood og það erum við að gera,“ segir hann og bætir við:
„Veiðigjöldin koma náttúrulega ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári” sagði atvinnuvegaráðherra.
Þá segir Binni að af viðtölum hans við aðra í greininni megi sjá að allir sem geta minnkað kostnað eru að gera það. „Millistór fyrirtæki með einn bát og vinnslu hafa mjög takmarkaða möguleika á að draga saman seglin og gætu orðið mjög illa úti vegna skattlagningarinnar.“
„Skattlagning í sjávarútvegi hefur ekkert öðruvísi áhrif þar en í öðrum atvinnugreinum,“ segir Binni. „Það nægir að benda á skatt á komur skemmtiferðaskipa, sem Eyjafréttir fjölluðu nýlega um (sjá frétt hér). Það er verið að skattleggja atvinnustarfsemi á landsbyggðinni sérstaklega, sem hefur keðjuverkandi áhrif á önnur störf, eins og í ferðaþjónustu og hafnarsjóðum.“
Að sögn Binna sýnir ný könnun Gallup og Samtaka atvinnulífsins að fyrirtæki í sjávarútvegi eru mjög svartsýn á framtíðina. „Það sem vakti athygli mína var að fyrirtæki á landsbyggðinni voru einnig áberandi svartsýnni,“ segir hann.
Mynd: Úr nýlegri könnun Gallup og SA um stöðu fyrirtækja á Íslandi.
Binni bendir að lokum á að ástandið hafi keðjuverkandi áhrif víðar. „Þetta mun hafa áhrif á tekjur hafnarsjóða og valda tjóni fyrir ferðaþjónustu, sérstaklega á svæðum þar sem atvinnulífið er þegar brothætt.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst