Dóra Björk Gunnarsdóttir fyrir hönd Vestmannaeyjahafnar lagði fram – á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs – til kynningar tillögu að tilraunaverkefni þar sem einstefna yrði frá Tangagötu að Básaskersbryggju við smábátahöfn. Tillagan er til þess fallin að bæta umferðaröryggi við Vigtartorg samhliða aukinni þjónustu við skemmtiferðaskip og ferðamenn á torginu.
Í skýringum með tillögunni segir að hafnarstjóri óski eftir að gera breytingar á umferðarskipulagi á hafnarsvæðinu yfir júnímánuð í tengslum við fyrirhugað tilraunaverkefni.
„Einstefna yrði þá tekin upp frá Tangagötu að Básaskersbryggju. Tilefni breytingarinnar er mikil gangandi umferð á svæðinu, sem og sú ákvörðun að þjónusta skemmtiferðaskip frá Vigtartorgi í stað Nausthamarsbryggju á meðan á tilraunaverkefninu stendur. Með þessari breytingu er ætlunin að auka öryggi gangandi vegfarenda og bæta aðgengi og þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa,” segir í útskýringunum.
Myndin hér að neðan sýnir fyrirhugaða einstefnu á meðan tilraunaverkefnið stendur yfir. Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið vísi erindinu til umferðarhóps.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rædd er tillaga um einstefnu á svæðinu. Árið 2023 var einnig tekin fyrir keimlík tillaga á fundi umferðarhóps – bara aðeins styttri einstefna. Fallið var frá að hrinda þeirri tillögu í framkvæmd. Mynd af þeirri tillögu má sjá hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst