Lindarvatn úr Eyjafjöllunum verður uppistaðan í nýjum íslenskum bjór, framleiddum í Vestmannaeyjum, ef hugmyndir um bjórverksmiðju í Eyjum verða að veruleika. Með tilkomu Bakkafjöru lækkar flutningskostnaður bjórsins uppá fastalandið til muna.Athafnamennirnir Björgvin Þór Rúnarsson og Birgir Nielsen hafa stofnað Íslenska bjórfélagið. Fjármögnun bjórverksmiðju í Vestmannaeyjum er á lokastigi, og vona félagarnir að þeir geti hafið framleiðslu næsta vor.
Undirstaðan að bjórnum verður íslenskt tært lindarvatn úr Eyjafjöllum, sem dælt er til Eyja gegnum vatnsleiðslu.
Tæplega fjörutíu ár eru liðin frá því fyrsta vatnsleiðslan var lögð til Eyja. Önnur var lögð til viðbótar árið 1971. Lagnirnar anna frystihúsunum í Eyjum alla jafna, þó ekki á hámarki loðnuvertíðar. Þess vegna verður nýrri lögn bætt við næsta vor, sem mun flytja um 30 prósentum meira af vatni til Eyja – sem dugir til að brugga bjór úr – og skapa ný störf.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst