Á föstudaginn kemur þann 19. október kl. 20. 00 fara fram á Háaloftinu góðgerðartónleikarnir Samferða. Fram koma Karlakór Vestmannaeyja, Júníus Meyvant, Una og Sara, Sæþór Vídó og ný vestmannaeysk hljómsveit Merkúr stígur sín fyrstu skref. Kynnir kvöldsins er leikarinn og grínistinn Tryggvi Rafnsson.

Tónleikarnir eru hluti af röð tónleika víðsvegar um landið. Allir sem fram koma gefa vinnuna sína og rennur allur ágóði beint til samtakanna. Fernir tónleikar eru á dagskrá  í ár, þeir fyrstu voru í ágúst í Félagsheimili Hnífsdals, og framundan eru tónleikar á Akureyri, í Vestmannaeyjum og í Bæjarbíói Hafnarfirði núna í október og nóvember. „Við munum væntanlega bæta Neskaupsstað við á næsta ári,“ sagði Rútur Snorrason, Eyjamaður, sem situr í stjórn Samferða sem sér um skipulag tónleikanna.

„Með tónleikunum erum við að vekja athygli á að Samferða er ekki bara fyrir höfuðborgarsvæðið, heldur fyrir landið allt. Þeir eru tækifæri fyrir okkur til að kynna Samferða og hvað við gerum. Öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu og hver króna sem inn kemur er skilin eftir í viðkomandi bæjarfélagi.“ En ágóði tónleikanna í Eyjum fer til fjölskylda sem þurfa á aðstoð halda hér í Eyjum.

„Með því að mæta á svæðið, kynnast fólki og sýna því og segja frá hvað við erum að gera og hvað við stöndum fyrir, þá stuðlum við að trú og trausti hjá fólki á Samferða,“ segir Rútur. „Við vinnum út frá ábendingum og einnig er ég í góðu sambandi við sóknarpresta á hverju svæði.“

Studdu 90 fjölskyldur á fyrsta árinu
Samtökin byggja á starfi Örvars Þórs Guðmundssonar, sem hafði í desember í sex ár safnað á eigin Facebooksíðu fyrir einstaklinga sem þurftu á fjárhagsaðstoð að halda. „Það hafði lengi blundað í mér að stofna góðgerðarsamtök á þeim forsendum sem við störfum á í dag og að gera það alla 12 mánuði ársins, ekki bara í 1 mánuð.  Í framhaldinu fengum við flott fólk með okkur í stjórn og höfum ávalt haft það að leiðarljósi að láta hverja einustu krónu renna til þeirra er minna mega sín.” sagði Rútur.

Rútur Snorrason.

Samferða góðgerðarsamtök eru stofnuð í nóvember 2016 og eru 5 aðilar sem skipa stjórn samtakanna. Rútur Snorrason, Örvar Þór Guðmundsson, Sigurlaug Ragnarsdóttir, Hermann Hreiðarsson og Brynja Guðmundsdóttir.  „Við í stjórninni deilum sömu áherslum og framtíðarsýn, þ.e. við vinnum að hugsjón í 100% sjálfboðaliðavinnu.  Enginn yfirbygging né kostnaður – hver einasta króna fer á þann stað sem hún á að fara á!  Verndari samtakana er séra  Vigfús Bjarni og Deloitte sér til þess að allt bókhald sé til fyrirmyndar og upp á borðinu.”

Á sínu fyrsta rekstrarári Samferða söfnuðust um 9 milljónir og var stutt við bakið á 90 fjölskyldum í landinu.

„Markmið okkar er og verður að gera þau atriði og þá þætti, er snúa að góðgerðarmálum rétt og vel.  Í leiðinni skapa trú og traust almennings í landinu á okkar starfi, því ekki er vanþörf á.  Umfram allt – hjálpa og aðstoða þá er minna mega sín, sem því miður er svo sannarlega ábótavant um allt land,” sagði Rútur að lokum

Þeim sem vilja leggja málefninu lið er bent á Facebook síðu samtakanna eða einfaldlega að mæta á tónleikana á Háaloftinu á föstudaginn. Aðgangseyrir er kr. 3.900 og fer forsala aðgöngumiða fram í Tvistinum. Dagskrá hefst kl. 20.00

fös19okt20:00Háaloftið: Samferða í Vestmannaeyjum20:00